Margrét Frímannsdóttir og fleiri allaballar héldu til Kúbu á dögunum í opinbera heimsókn. Að vísu sá ljúflingurinn Castro sér ekki fært að hitta Margréti og hennar fríða föruneyti en engu að síður tókst allaböllunum að hitta á utanríkisráðherra landsins. Í fréttum í gær var svo rætt við Margréti um helstu tíðindi af heimsókninni. Í ljós kom að það var helst að frétta eftir heimsóknina að mögulegt er að Íslendingar kaupi síróp af Kúbverjum. Um annað spurðu fréttamenn ekki. Vísast til ekkert athugavert við mannréttindi á þeim bænum og ástæðulaust fyrir sendinefnd Alþýðubandalagsins að ræða slík mál við leiðtoga fyrirmyndarríkisins. Að minnsta kosti á meðan Margrét getur haft milligöngu um að íslensk fyrirtæki kaupi nokkur kíló af sykri af Castro.
Eins og menn muna sjálfsagt hljóp Össur Skarphéðinsson í felur þegar landsmenn tóku bakföll af hlátri yfir utanríkismálakaflanum í málefnaplaggi vinstri samfylkingarinnar á dögunum. En Össur er fulltrúi samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd Alþingis og hefði verið eðlilegt að hann svaraði fyrir klúðrið. Lét hann Sighvat Björgvinsson og Margréti Frímannsdóttur sitja í súpunni. Í gærkvöldi reyndist fjölmiðlum einnig ómögulegt að ná í Össur Skarphéðinsson.
Össur skrifaði heilsíðugrein í DV á laugardaginn þar sem hann afsakaði veru sína á DV í bak og fyrir. Þar segir hann m.a.: DV er ekki opinber stofnun heldur einkafyrirtæki. Eigendurnir ráða sjálfir hvaða áhættu þeir taka með ráðningu ritstjóra. Einu dómararnir sem máli skipta um ágæti þeirrar ákvörðunar eru þeir sem vöruna kaupa sem þeir framleiða. Í þessu tilviki eru það lesendur DV. Ef blaði er misbeitt kemur það augljóslega niður á gæðum þess sem vöru.
Þetta er hárrétt hjá Össuri enda hefur DV mátt vera í vörn að undanförnu vegna veru hans á blaðinu á meðan flestir aðrir fjölmiðlar hafa nýtt góðærið til sóknar. Til dæmis var það vonlaust verk að ætla sér að selja DV sem gagnrýnið og óvægið fréttablað á meðan fulltrúi stjórnmálaflokks sat í stóli ritstjóra. Össur var Akkilesarhæll DV. En þessum kafla í sögu DV er nú lokið. Lesendur geta aftur vænst þess að blaðið verði fulltrúi neytenda gegn framleiðendum, kjósenda gegn frambjóðendum og einstaklingsins gegn stjórnvöldum.
Sjaldan er ein báran stök. Ritstjóri Dags, Stefán Jón Hafstein, skrifar pistil í blað sitt í síðustu viku og hefst hann á þessum orðum: Það er frekar óvenjulegt að menn játi sig hreinskilninslega sigraða. Segi einfaldlega: ég ætla ekki einu sinn að reyna að gera það sem ætlast er til. Flestir sem það gera fara þá bara aðra leið.
Degi var á sínum tíma ætlað að keppa við Morgunblaðið um hylli lesenda og sameina vinstrimenn. En vinstrimenn hafa sjaldan verið sundraðri en nú og ekki fer mörgum sögum af útbreiðslu blaðsins. Hins vegar er mikið rætt um að Stefán Jón fari í pólitík og einhver annar taki við ritstjórninni.