Umsvif utanríksráðuneytisins hafa farið mjög vaxandi síðustu árin og sparnaður ekki forgangsatriði á þeim bæ. Ný sendiráð og skrifstofur eru opnuð en ekki er haft fyrir því að loka öðrum á móti, enda virðast menn halda að samskipti geti varla átt sér stað milli Íslendinga og annarra íbúa jarðarkringlunnar nema í gegnum opinberar skrifstofur. Það kom þess vegna ekki á óvart, að þegar fréttist af sparnaði hjá ráðuneytinu þá varð hann vegna mistaka! Berlínarborg tókst að mæla vitlaust lóðarskika sem utanríkisráðuneytið keypti undir sendiráð og varð borgin þess vegna af 95 milljónum króna sem Halldór Ásgrímsson mun nú glaður nýta í önnur verkefni. Þau verkefni verða þó líklega ekki skattalækkanir. Svo stórkostleg verða mistökin ekki!
Forsætisráðuneytið, Vinnuveitendasamband Íslands og Verslunarráð Íslands vinna nú að því sameiginlega að kanna kostnað sem atvinnulífið verður fyrir vegna reglugerða hins opinbera. Á mánudag var kynnt niðurstaða þessarar vinnu um kostnað vegna reglna í umhverfismálum og er hún hin athyglisverðasta. Það kemur í ljós að samkvæmt mati þeirra sem verða að vinna eftir þessum reglum, þ.e. fyrirtækjanna í landinu, er kostnaður venjulegs fyrirtækis um 50.000 krónur á mánuði við að fara eftir reglum í þessum eina málaflokki. Samanlagt er árlegur kostnaður íslenskra fyrirtækja vegna reglna á umhverfissviðinu metinn á hátt í þrjá milljarða króna og telja fyrirtækin að hann hafi vaxið á síðustu árum.
Þetta er lýsandi fyrir hin síauknu umsvif hins opinbera, því þótt skatthlutföll séu ekki hækkuð, og hafi jafnvel heldur farið lækkandi hér á landi, aukast þessi ósýnilegu ríkisumsvif sífellt. Þar sem erfitt er að meta hin neikvæðu áhrif þess háttar ríkisumsvifa er stjórnlyndum mönnum oft í lófa lagið að koma á flóknum reglum sem þvælast fyrir eðlilegri starfsemi í atvinnulífinu og gera fleira illt en gott. Það lofar góðu að einhverjir opinberir aðilar virðast nú farnir að átta sig á þessu og reyna að taka á vandanum. Það verður hins vegar við ramman reip að draga ef afnema á einhverjar þessara reglna, því hávaðasamir þrýstihópar og stjórnmálamenn forsjárhyggjunnar munu standa vörð um þessi ríkisafskipti eins og önnur.