Ein ástæðan sem menn hafa hingað til talið réttlæta rekstur útvarps á vegum ríkisins er margrómað öryggishlutverk þess. Fyrir skömmu bárust hins vegar fréttir af því að útsendarar innheimtudeildar Ríkissjónvarpsins hefðu lent í ryskingum við almenna borgara sem kærðu sig ekki um hnýsnina í njósnurum RÚV. Í gær greinir Morgunblaðið svo frá því að menn á vegum Ríkissjónvarpsins hafi villt á sér heimildir til að fá fólk til að svara spurningum um sjónvarptæki á heimilum. Ef Ríkisútvarpið stæði sig sem öryggistæki ætti það væntanlega að vara landsmenn við þeim meintu ofbeldisseggjum og svikurum sem það sendir sjálft að heimilum fólks um þessar mundir.
Þeir sem ráða yfir fjölmiðlum nýta þá stundum til annarra hluta en flytja fréttir af því sem fréttnæmt er í landinu. Nota þeir stundum tök sín á fjölmiðlum til að hafa áhrif á umræðu, koma sögum á gang eða draga upp þá mynd af fólki sem þeim gagnast best. Þannig er reglulega efnt til skoðanakönnunar um það áleitna vandamál, hver af forystumönnum íslenskra eigi helst að vera leiðtogi hins ímyndaða bræðings þeirra. Eins og gefur að skilja getur varla farið hjá því að einhver verði oftast nefndur og þá er það gert að átyllu til að birta af honum forsíðumynd og taka við hann útvarpsviðtöl.
Núna á mánudaginn var þetta enn og aftur gert í DV. Varð þar niðurstaðan sú, að meirihluti þeirra sem afstöðu tóku, stakk upp á Margréti S. Frímannsdóttur. Birti DV svo risalitmynd af Margréti á forsíðu og Ríkisútvarpið tók langt og mikið viðtal við Margréti þar sem henni var óskað til hamingju með sigurinn! Þannig var almenningi allan daginn gefið í skyn að Margrét væri hinn mesti leiðtogi. Ekki virðist ritstjórn DV hins vegar hafa haft mikinn áhuga á þeirri staðreynd að þrátt fyrir
að leiðtogar vinstri manna hafi verið í fréttum linnulaust mánuðum saman, reglulega fengið að kynna þar stefnu í helstu málum (og jafnoft étið hana ofan í sig aftur með glæsibrag), gátu 45 % svarenda í könnuninni ekki nefnt nokkurn einasta þeirra til að leiða þetta væntanlega furðuframboð. Og lái þeim hver sem vill. – Þeir sem á annað borð svöruðu virðast svo hafa tekið spurningunni misjafnlega alvarlega. Þannig kemur fram að einn nefndi Þórhall Sigurðsson (Ladda), einn nefndi Hrannar B. Arnarsson og nokkrir Sighvat Björgvinsson!
Í gær lét ritstjóri DV svo hringja út skoðanakönnun og spyrja hundruð manna að því, hvaða einstakling sem ekki situr á þingi þau vildu fá á þing. Þessi einstæða könnun var greinilega gerð í von um að hægt væri að slá því upp að almenningur krefðist þess að fá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á þing. En aldrei þessu vant sló DV nýrri skoðanakönnun ekki upp yfir þvera forsíðuna. Ætli ástæðan geti hafa verið sú að af 600 manna úrtaki voru aðeins rúmlega 20 sem nefndu Ingibjörgu Sólrúnu? – Svipuð spurn virðist vera eftir öðrum af sama toga: Af 600 manns töldu sex vera þörf á Sverri Hermannssyni á þingi.