Helgarsprokið 18. október 1998

291. tbl. 2. árg.

Í gær og fyrradag var haldin hér á landi ráðstefna um þróun lagaumhverfis Netsins. Hingað til hefur umræða um þau mál aðallega snúist um það hvernig ríkisvaldið geti komið lögum yfir þennan samskiptamiðil, hvort opinber ritskoðun skuli viðgangast og hvort og þá hvernig ríkisvaldið geti innheimt skatta af viðskiptum á Netinu. Á þessari ráðstefnu var vandamálið skoðað frá annarri hlið og rætt um hvernig lög og reglur geti þróast á Netinu án afskipta hins opinbera og hvernig viðskipti og önnur samskipti manna geti farið fram í þessari nýju veröld.

Til að menn átti sig á að ekki er um byltingar- eða fjarstæðukennda hugmynd að ræða þegar talað er um að lög geti þróast án yfirvalds var á ráðstefnunni lögð töluverð áhersla á að rekja lagaþróun í sögulegu ljósi. Birgir Þór Runólfsson ræddi um íslenska þjóðveldið og hvernig þar hafi mátt halda uppi lögum án ríkisvalds. John Hasnas, lögmaður og háskólakennari fjallaði um þróun laga, aðallega á Englandi, frá því fyrir árið þúsund og allt til okkar daga. Lagði hann ríka áherslu á mikilvægi þess að lög fengju að þróast og að menn hefðu viðmiðun af mismunandi lögum, í raun samkeppni mismunandi laga. Þannig hafi, sérstaklega á árum áður, mátt tryggja stöðu einstaklingsins gagnvart yfirvöldum.

Bruce Benson, prófessor við Háskóla Flórídaríkis, ræddi um mikilvægi þess að hafa mismunandi lagakerfi í alþjóðlegum viðskiptum, þar sem ólík viðskipti krefðust ólíkra laga og reglna. Ekki væri heppilegt að njörva allt niður með sama hætti og ef ríkið ætlaði sér að þröngva settum reglum upp á samskipti og viðskipti á Netinu gæti það þvælst mikið fyrir þróun þess. Hann taldi að sú áhersla sem menn legðu oft á að ríkið þróaði sem hraðast viðskiptalegt lagakerfi í fyrrverandi ríkjum Austur-Evrópu væri röng. Hann mælti frekar með því að lögin fengju að þróast og í raun að vera einkarekin á sumum sviðum að minnsta kosti, því hætt væri við mistökum af lagasetningu ríkisins. Það sama ætti við um Netið. Þar ættu að geta þróast sjálfstæðar reglur, byggðar á eldri rétti, svo sem sjórétti og ýmsum venjum í viðskiptum.

Annar ræðumaður, Clint Bolick, fjallaði almennt um mikilvægi þess að ríkið fengi ekki að leika um of lausum hala í laga- og reglusetningu sinni. Hann talar af nokkurri reynslu um það efni, því hann sér um málarekstur hjá Institute for Justice, sem er bandarísk stofnun sem sérhæfir sig í að reka án endurgjalds mál fyrir einstaklinga sem lent hafa í því að ríkið reynir að skerða réttindi þeirra. Hann flutti meðal annars og vann mál í Denver, í Colorado fylki, þar sem leigubílstjórar sem störfuðu við akstur hjá einu fyrirtæki fengu ekki leyfi til að opna eigin fyrirtæki og reka eigin leigubíla. Menn kannast sjálfsagt við slíkar reglur héðan, því hér eru einmitt sambærilegar reglur og þarna voru dæmdar ólögmætar, þ.e. hið opinbera takmarkar atvinnufrelsi manna með því að banna þeim að hefja leigubílaakstur. Bolick rakti fleiri dæmi af þessu tagi og taldi einsýnt að sporna yrði gegn því að ríkið tæki sér rétt til umfangsmikillar laga- og reglusetningar um samskipti á Netinu, þar sem reynslan af umsvifamiklum reglum hins opinbera væri slæm.

Tveir fyrirlesarar fjölluðu um praktísk vandamál varðandi viðskipti og önnur samskipti á Netinu. Annar þeirra, Douglas Jackson, stofnandi Gold & Silver Reserve, ræddi um notkun rafrænna gjaldmiðla, en fyrirtæki hans býður upp á rafrænan gjaldmiðil sem hvílir á gullfæti. Hinn, James Bennett, stjórnarformaður Internet Transaction Transnational Inc., fjallaði um aukið traust í viðskiptum á Netinu og leiðir til að ná því marki. Fyrirtæki hans er að þróa aðferðir í þessum tilgangi og byggjast þær á að þeir sem vilja eiga viðskipti sín á milli gangi í nokkurs konar „samfélag“ á Netinu (en þau geta verið óendanlega mörg), þar sem þeir fari eftir ákveðnum reglum í samskiptum sín í milli og viðskipti lúti tilteknum reglum sem jafnvel hafi þróast í aldanna rás.

Þetta er spennandi umræða og mikilvæg fyrir alla þá sem nota Netið, enda ljóst að ýmsir vilja gera allt til að stýra því sem fram fer á Netinu og skerða þannig frelsi manna til að velja sjálfir hvernig þeir vilja haga samskiptum sínum. Enda standa stjórnmálamenn nú frammi fyrir því að Netið dragi verulega úr valdi þeirra og möguleikum til að skipta sér af viðskiptum fyrirtækja og einstaklinga. Nú þegar eru haldnar ráðstefnur á vegum yfirþjóðlegra stofnana eins og UNESCO þar sem rætt er hvernig stjórnmálamenn geti brugðist við þessu „vandamáli“. Verði þau sjónarmið ofan á er óljóst um framtíð Netsins, þó ólíklegt sé að vísu að hægt verði að koma við jafn umsvifamiklu eftirliti og afskiptum í þessari nýju veröld eins og í hinni gömlu.