Vef-Þjóðviljinn hefur oft nefnt dæmi um sóun hins opinbera á fjármunum skattgreiðenda. Sjaldgæft er þó sem betur fer að stofnanir hins opinbera keppi beinlínis um fjárausturinn, en slík keppni stendur þó yfir nú. Frá þessari keppni er greint á forsíðu Viðskiptablaðsins, en þar segir að utanríkisráðuneytið sé komið í keppni við Útflutningsráð um kynningu erlendis á íslenskri framleiðslu.
Útflutningsráð hefur um árabil gefið út bók til að kynna íslenskar útflutningsvörur og rekur einnig heimasíðu í þeim tilgangi. Utanríkisráðuneytið telur þetta hins vegar ekki nóg og er sjálft farið að reka ámóta heimasíðu og aðra viðskiptaþjónustu í ráðuneytinu í samkeppni við Útflutningsráð. Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri ráðsins segir þetta framtak ráðuneytisins auka kostnað útflutningsfyrirtækja og að verr sé af stað farið en heima setið.
Starfræksla þessarar viðskiptaskrifstofu í ráðuneytinu er enn eitt dæmið um aukin umsvif þess. Full ástæða er til að draga úr umsvifum ráðuneytisins og er þar komið gott dæmi um nauðsynlegan niðurskurð hjá hinu opinbera, en langt er frá að nægilegs aðhalds sé gætt í nýkomnu fjárlagafrumvarpi.
Einar K. Guðfinnsson og fleiri þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að kannað skuli hvort hægt sé að beita vegatollum hér á landi í meiri mæli en gert er. Þetta er þörf tillaga og væntanlega kemur í ljós að hægt er að reka fleiri vegaspotta en Hvalfjarðargöngin með veggjaldi. Sjálfsagt er að fara þá leið við fjármögnun vega fremur en þá sem farin hefur verið hingað til, þ.e. að skattleggja bensín og bíla sérstaklega og láta eins og þeir fjármunir renni til vegagerðar. En verði tekið upp veggjald verður vitaskuld að gæta þess að lækka önnur gjöld eða leggja af í staðinn, því óverjandi er að auka álögur á almenning.
Í framhaldi af aukinni notkun veggjalds má svo koma vegum í einkaeign, enda er ekkert sem segir að vegir þurfi að vera á hendi hins opinbera. Með einkavæðingu vegakerfisins mætti nýta fjármuni sem fara í vegagerð betur og koma í veg fyrir að annarleg sjónarmið ráði við vegalagningu. Slík breyting gæti jafnvel orðið til þess að vegir verði lagðir þar sem mest þörf er fyrir þá en ekki þar sem atkvæðamestu (eða e.t.v. frekar atkvæðaminnstu) þingmennirnir eru. Slíkt væri velkomin nýbreytni.