Fimmtudagur 15. október 1998

288. tbl. 2. árg.

Kyoto samkomulagið er vinstri mönnum hér á landi hugleikið og vilja þeir flest gera til að Íslendingar undirriti það (að vísu ætlast þeir ef til vill ekki til að það verði haldið frekar en Ríó samkomulagið sem þeir undirrituðu en héldu ekki). Þeir eiga sér ýmsa skoðanabræður í Bandaríkjunum, þeirra á meðal varaforsetann Al Gore, sem hafa haldið því fram að kostnaðurinn vegna samkomulagsins verði ekki mikill.

Nú hefur ný rannsókn opinberrar stofnunar í Bandaríkjunum, Energy Information Administration, sýnt að kostnaðurinn vegna samningsins yrði gífurlegur. Samkvæmt rannsókninni yrði bensínverð að hafa hækkað um 53% árið 2010 til að hægt væri að standa við samninginn. Ýmis annar kostnaður fylgir samningnum og má þar nefna að stofnunin áætlar að verg landsframleiðsla í Bandaríkjunum mundi lækka um 4,1% miðað við sama tímabil ef eftir samningnum yrði farið.

Nú kann að vera að vinstri menn treysti sér til að leggja slíkar byrðar á sig til að gangast undir samning sem engu mun skila (áhrif hans á hitastig jarðarinnar eru hverfandi), en að þeir ætli öðrum að taka þátt í slíku er með ólíkindum. En þetta er sjálfsagt bara örvæntingarfull tilraun manna sem vita að allt er reynandi til að beina athygli fólks frá sameiningarvanda þeirra.

Og fyrst farið er að ræða sameiningartilburði vinstri manna er rétt að óska formanni Alþýðubandalagsins til hamingju með að meiri hluti þingflokks Alþýðubandalagsins eða alls 5 þingmenn af 9 skuli enn sjá ástæðu til að vera í flokknum. En síðast í gær varð Kristni Gunnarssyni ómótt innanflokks og starfar nú sjálfstætt í nýjum þing„flokki“. Þó getur brugðið til beggja vona þar sem tveir af þingmönnunum fimm sem eftir eru í þingflokknum, eru Svavar Gestsson og Ragnar Arnalds.  Ef þeir hlypust á brott yrðu eftir auk Margrétar þær Sigríður Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir og færi vel á því að þær sameinuðust hinni hámenntuðu Guðnýju Guðbjörnsdóttur.

En svona til glöggvunar fyrir þá sem fylgjast með því hvernig staðan er í sameiningunni þá eru nú í stjórnarandstöðu á þingi jafnaðarmenn en þeir eru í Alþýðuflokki og Þjóðvaka (hvar er Ágúst þessa dagana?) en sumir voru í Alþýðubandalagi og Framsókn áður, þingmenn sem kosnir voru fyrir Kvennalista en þeir eru í tveimur eða þremur þingflokkum og hugsa jafnvel sjálfstætt um þessar mundir og eiga sig sjálfir en láta þó ekki aðra eiga sig, þá er það Alþýðubandalagið en þar má telja á fingrum annarrar handar þingmenn í þingflokki flokksins en þar að auki er Stefna Ögmundar og Grænn vettvangur Hjörleifs og svo hefur ritstjórn DV gefið Steingrími Sigfússyni og hans mönnum hið smekklega viðurnefni Talebanar  En DV er nú nýtt til hins ítrasta til að níða skóinn af þeim sem ekki vilja gefast sameiningunni á vald.