Þingmaðurinn Ágúst Einarsson hefur undanfarin misseri útskýrt það fyrri landsmönnum í greinum í Morgunblaðinu og viðtölum í Degi (sem svo skemmtilega vill til að hann á hlut í) og DV (en svo skemmtilega vill til að þingflokkur jafnaðarmanna hefur þar eftirlitsfulltrúa á ritstjórninni) hvað greini á milli Sjálfstæðisflokksins og hins ímyndaða jafnaðarmannaflokks. Fátt hefur komið á óvart í þessum skrifum Ágústar enda mestmegnis gamlar tuggur um þá stefnu vinstri manna að auka skatta og ausa fé úr ríkissjóði.
En nú hefur Ágúst loksins fundið nýjan flöt á þessu máli. Mun það vafalaust skipa honum á bekk með fremstu pólítísku hugsuðum samtímans. Kom það fram í umræðum á Alþingi í síðustu viku en þar þar sagði Ágúst: Ef ekkert verður að gert fara 6% af Hollandi og 17% af Bangladesh undir vatn. Mér kemur það við. Það eru kannski einhverjir sem segja: Hvað kemur mér það við þótt Holland eða Bangladesh fari að hluta undir vatn? Ég segi að það komi okkur Íslendingum við. Þarna er sá pólitíski grundvallarágreiningur milli okkar og ríkisstjórnarinnar.
Vafalaust flýgur Ágúst inn á þing að nýju með þennan pólítíska grundvallarboðskap í farteskinu. Jafnaðarmenn hljóta að sigra í næstu kosningum eftir að Ágúst upplýsti að þeim komi það við hvort 17% af Bangladesh og 6% af Hollandi fara undir vatn. Enda sjá það allir að hér er um pólítískan grundvallarágreining að ræða!
Eins og Vef-Þjóðviljinn gat um í síðustu viku verður haldin forvitnileg ráðstefna hér á landi á föstudag og laugardag. Meðal fyrirlesara verður Clint Bolick frá Institute for Justice en sú stofnun tekur upp mál fyrir einstaklinga sem hafa mátt þola frelsisskerðingu og sækir rétt þeirra fyrir dómstólum. Hér má annars sjá dagskrána í smáatriðum.
Þá er rétt að vekja athygli á því að bóksalan LAISSEZ FAIRE BOOKS er með útsölu nú í október. Þar má fá fjölda góðra bóka á betra verði en venjulega. Að vísu bætist svo 24,5% virðisaukaskattur á bækurnar og menn þurfa einnig að þola að starfsmenn tollstjóra gægist í bögglana.