Ríkið telur margt vera í sínum verkahring. Fyrir nokkru skipaði fjármálaráðherra starfshóp sem átti að móta tillögur um hvernig mætti efla sparnað í landinu. Einhverjum fyndist nú eðlilegra að skuldseigur ríkissjóður einbeitti sér að eigin sparnaði en skipti sér síður af því hvort fólk kýs að eyða fé sínu strax eða síðar. En látum það vera. Meðal þess sem starfshópurinn leggur til, er að lögum verði breytt á þann veg að skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa falli ekki niður á næstu árum. Mörgum finnst einstaklega snjallt að veita þeim sem kaupa bréf í hlutafélögum afslátt frá tekjuskatti. Er í því sambandi bent á, að sú tilhögun hefur eflaust flýtt fyrir þróun hlutabréfamarkaðar, flýtt fyrir því að almenningur spari með hlutabréfakaupum.
En þó margir, og ekki síst þeir sem hafa milligöngu um kaup og sölu hlutabréfa, séu mjög hrifnir af skattaafslætti til hlutabréfakaupenda, verður að telja að gallarnir við slíkan afslátt séu fjölmargir. Vefþjóðviljinn hefur oft hvatt til þess að skattkerfið verði einfaldað svo sem mest má vera. Hefur þannig ítrekað verið lagt til að svokallaður sjómannaafsláttur verði lagður af. Þó flestir telji sjómenn alls góðs maklega þá verður ekki horft framhjá því að meginreglan hlýtur að vera sú að menn séu jafnir fyrir skattalögunum. Engum dytti í hug að samþykkja sérstaka skattahækkun á alla þá sem ekki vinna á sjó. Slíkt væri þó engu verra en sjómannaafsláttur. Eins dettur líklega fæstum í hug að leggja til að hækkaður verði skattur allra þeirra sem ekki hafa keypt sér hlutabréf nýlega. Þó væri það litlu verra en að lækka skatt allra þeirra sem hafa keypt sér hlutabréf. Rétt eins og Vefþjóðviljinn hvetur enn til að sjómannaafsláttur verði felldur niður, leggur hann til að skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa fari sömu leið. Við það mætti strax lækka tekjuskattsprósentuna um eitt prósentustig.
Í Mánudagsspjalli Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var rætt við formann Ferðamálaráðs ríkisins, Magnús Oddsson, um stöðu og horfur í ferðaþjónustu hér á landi. Það er svo sem nógu athyglisvert að hér á landi séu bæði til sjónvarp sem ríkið rekur og ríkisrekið ráð sem sinnir ferðamálum, en það var einnig athyglisvert að hlusta á formann þessa ráðs tala um hvað hér ætti að gera í þessum málum. Hann sagði t.a.m. við hljótum að stýra því, þegar talið barst að ferðamannastraumnum og virtist telja að ríkisvaldið ætti með einhverjum hætti að hafa áhrif á það hvenær þessi straumur rennur til landsins og hvert á land hann rennur. Þeir sem ekki hafa starfað lengi hjá opinberu ferðamálaráði hefðu allt eins gert ráð fyrir að það væri verkefni þeirra sem starfa á þessum markaði að sjá út hvenær er heppilegast að lokka ferðamenn hingað og hvert er hagstæðast að beina þeim.
En svona virðist þetta ævinlega vera. Hið opinbera er kallað til í tíma og ótíma til að fylgjast með og reyna að stýra atvinnulífinu, þótt bæði reynsla og rök hafi ítrekað kennt að atvinnulífinu farnast betur sé það látið sjá um hlutina sjálft. Eða trúir því einhver að arður af ferðamannaþjónustu verði meiri ef opinberir aðilar reyna að stýra straumnum og hafa áhrif á uppbyggingu í greininni?