Rudolf Scharping leiðtogi jafnaðarmanna í þýska þinginu er í viðtali í nýjasta tölublaði Wirtschaftswoche um efnahagsstefnu væntanlegrar ríkisstjórnar Þýskalands. Þar er hann spurður út í hvernig árangur eigi að nást og leggur hann áherslu á að lækka skatthlutfallið og draga úr skrifræðinu. Hann leggur reyndar að flestu leyti áherslu á þau mál sem frekar hafa einkennt málflutning hægri manna en þeirra sem eru vinstra megin við miðju og er þar á sömu nótum og verðandi kanslari, Gerhard Schröder. Þetta vekur athygli í ljósi málflutnings svokallaðra jafnaðarmanna hérlendis, því hann hefur allur verið til vinstri og byggst á hækkuðum sköttum og auknum umsvifum hins opinbera. Mættu þeir gjarnan læra þó ekki væri nema ögn af þýskum jafnaðarmönnum, sem þeir reyndar þykjast eiga að samherjum.
En á meðan þýskir jafnaðarmenn færast til hægri til að vinna kosningar og vita að nauðsynlegt er að halda sig við þá stefnu eftir kosningar til að efnahagslífið gangi eðlilega, þá eru íslenskir jafnaðarmenn farnir að þrasa um veru varnarliðsins enn á ný! Það er grátbroslegt að Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson skuli farin að munnhöggvast í gegnum fjölmiðla um það hvort varnarliðið skuli vera eða fara. Þetta hugsanlega sameinaða framboð jafnaðarmanna, Brotabrotið svokallaða, virðist gera allt sem í þess valdi stendur til að koma í veg fyrir að verða kostur í næstu kosningum.
Undanfarna daga hefur Ríkissjónvarpið haft feikilegan áhuga á stríði foringja íslenskra verkalýðsfélaga við gerskt fyrirtæki sem vinnur hér að línulögn. Fyrsta frétt Ríkissjónvarpsins er gjarnan send beint frá vígstöðvunum og fjallar um góðu verkalýðskarlana sem berjast við vondu Rússana sem ekki vilja borga rétt laun. Og ekki þykir Ríkissjónvarpinu það nóg, í gær var sérstaklega fjallað um þetta mál í Kastljósþætti. Merkilegt er það, að forráðamenn fréttastofunnar láta gjarnan Jón Gunnar Grétarsson fréttamann sjá um fréttaflutning af málinu. Fjölmiðlamenn hafa jafnan mikinn áhuga á hugsanlegu vanhæfi annarra og því er ekki óeðlilegt að þeir fari sjálfir varlega í slíkum efnum. Og nefndur Jón Gunnar Grétarsson, sem segir almenningi fréttir af deilum verkalýðsforingjanna við fyrirtækið, er sonur Grétars Þorsteinssonar forseta ASÍ. Hér verður því ekki haldið fram að þau tengsl hafi haft áhrif á umfjöllun hans um þetta mál, en eðlilegra hefði verið hjá fréttastjóra að fela öðrum fréttamanni þetta tiltekna verkefni.
Eins og menn vita er íslenska utanríkisráðuneytið öflugt, bregst hratt og örugglega við því sem að höndum ber og gefur ekki tommu eftir. Undanfarin fjögur ár hefur með litlum hléum staðið borgarastyrjöld í Júgóslavíu og nú er Halldóri Ásgrímssyni nóg boðið. Utanríkisráðuneytið sendi því í gær frá sér tilkynningu þar sem sagði að í ljósi ástands á Balkanskaga séu íslenskir ríkisborgarar hvattir til að fara ekki þangað í ferðalög.