Í dag verða mikil mótmæli um allt Rússland. Þar háttar svo til að milljónir manna fá sjaldnast sín lágu laun greidd, sparifé eyðist í verðbólgunni og hungur sverfur að fjölda fólks. Ekki er að efa að margir Íslendingar finna sárt til með þeim Rússum sem svo illa standa.
En samúð er ekki æt. Undanfarnar vikur hefur ekki farið milli mála að rússneskt fyrirtæki tók að sér verktakavinnu hér á landi og vinnur hér nú á þess vegum fjöldi Rússa. Gegn þessu fyrirtæki berjast nú íslenskir verkalýðsforingjar með kjafti og klóm. Segja þeir að rússnesku verkamennirnir fái ekki greidd laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum og krefjast þess að ríkið komi í veg fyrir að Rússunum haldist það uppi. Þó íslensku verkalýðsforingjarnir láti eins og þeir hafi eingöngu hagsmuni erlendu verkamannanna í huga, hangir annað á spýtunni. Það sér það hver maður, nema hugsanlega einn og einn fréttamaður, að mun óhagkvæmara verður að flytja verkamenn hingað yfir hálfan hnöttinn ef greiða verður þeim sömu laun og innfæddir krefjast. Eina ástæðan fyrir því að erlendir verkamenn fá umrædd störf er að þeir taka lægra verð fyrir vinnu sína en menn gera hér. Verði þeim gert skylt að notast við innlenda kjarasamninga, fá þeir einfaldlega ekki vinnu hér.
Þó rússneskir verkamenn fengju hér greidd lægri laun en íslenskir verkamenn eru vanir, væru þeir engu að síður að fá venjuleg rússnesk árslaun á nokkrum vikum. Slíkt hefði mikil áhrif, ekki aðeins fyrir þá heldur og fjölskyldu þeirra. Það hlyti því að vera fagnaðarefni öllum þeim sem lengi hafa barist fyrir því sem menn nefna lífskjarajöfnun – nema þá að lífskjarajöfnun megi bara vera þeim sjálfum í hag en engum öðrum.
Að undanförnu hefur þeim verslunum sem selja efni til víngerðar fjölgað nokkuð í Reykjavík og einnig hafa slíkar verslanir skotið upp kollinum í öðrum bæjum. Búnaður til framleiðslunnar kostar einungis nokkur þúsund krónur og þau efni sem til þarf í eina vínflösku kosta jafnvel innan við 100 krónur. Bæði efnin og búnaðurinn hafa tekið töluverðum framförum að undanförnu. Sjálfsagt hefur það eitthvað með þetta aukna framboð að gera. Hitt hlýtur einnig að hafa áhrif að verðlagning (lesist skattlagning) á víni er fáránleg. Þessi himinháa álagning ríkisins á vín á vafalaust sinn þátt í því að landsmenn leita nú í auknum mæli niður í kjallara sína og leggja í. Þótt efnin til víngerðarinnar hafi batnað töluvert er þó líklega enn langt í að landinn laði fram sömu gæði og vínbændur í suðlægum löndum gera á vínökrum sínum.
Tilgangurinn með háum sköttum á áfengi er víst tvíþættur. Annars vegar að afla ríkinu og tekna og hins vegar að koma í veg fyrir að menn drekki úr hófi. Þegar svo mikil gerjun er í kjöllurum landsmanna má þó gera ráð fyrir að ríkið gæti náð sömu eða meiri tekjum með lægri sköttum á áfengi. Einnig er óvíst að drykkja sé minni en ella þar sem allsendis ómögulegt er að áætla hversu mikilvirkur heimilisiðnaðurinn er.