Starfsmenn fjölmiðla geta notað ýmsar aðferðir við að koma pólitískum áróðri á framfæri. Oft er það gert í fréttum, t.d. þegar sent er beint út frá opnum auglýstum tíumannafundum vinstri manna en ekkert sagt frá grunsemdum um vægast sagt vafasama meðferð forystumanna þeirra á fjármunum. Í kjaftaþáttum útvarpsstöðvanna er það oft gert með því að leita álits fólks eins og Össurar Skarphéðinssonar og Svans Kristjánssonar, og jafnvel Guðnýjar Guðbjörnsdóttur og Bryndísar Hlöðversdóttur á því sem efst er á baugi. Starfsmenn Ríkissjónvarpsins hafa fundið enn eina leið. Og nú er áróðrinum beint að ungum börnum, hugsanlega í þeirri von að þau sitji ein og opinmynnt við skjáinn.
Ríkissjónvarpið sendir einu sinni í viku, á mánudagseftirmiðdögum, út þátt sem nefnist Veröld dverganna. Þar er börnum tjáð að jörðin sé í stórhættu. Náttúran er ætíð niðurnídd og smáð / hvenær ætlum við að bæta okkar ráð? er þar sungið. Boðskapurinn til barnanna er að við séum öll í lífshættu vegna gróðurhúsaáhrifa, mennirnir dæli eitri út í loftið og það endi með því að jörðin hitni, jöklar bráðni, mikill hluti jarðarinnar fari á kaf og svo framvegis. Og starfsmenn Ríkissjónvarpsins hafa ákveðið að senda út 26 þætti af þessari Veröld dverganna. Hvað ætli væri sagt ef áróðurinn væri á hinn veginn?
Hagfræðingurinn Ronald Coase benti á það í viðtali í tímaritinu Reason í byrjun síðasta árs, að upplýsingatæknin hefði þann kost í för með sér að minnka það sem kallað er viðskiptakostnaður og gera markaði skilvirkari. Það sem hann átti við er að fólk ætti æ auðveldara með að kynna sér hvað er til boða og á hvaða verði, sem þýðir að það getur í mörgum tilvikum keypt beint að utan það sem það vantar líki því ekki verðlagið í heimalandinu.
Í nýjasta tölublaði The Economist er úttekt á alþjóðaviðskiptum og þar er einnig bent á þá miklu möguleika sem rafræn samskipti hafa í för með sér. Viðskipti með vörur geta að mati tímaritsins aukist verulega með tilkomu Netsins, en slíkt kemur neytendum vel. Áhrifin á viðskipti með þjónustu ættu þó, segir í úttektinni, að vera enn meiri en með vörur, því nú er hægt að selja alla þjónustu, sem koma má á stafrænt form, á milli landa. Þetta er vissulega jákvæð þróun og lofar góðu um framtíðina ef þessi samskiptamáti fær að þróast og dafna með þeim hætti sem verið hefur hingað til, þ.e. án afskipta eða miðstýringar. Enda leggur The Economist áherslu á að þessu verði ekki spillt og segir m.a.: Einn helsti kosturinn við rafræn viðskipti er að þau eru tiltölulega laus við afskipti ríkisins.