Mánudagur 5. október 1998

278. tbl. 2. árg.

Á næstu mánuðum verða væntanlega haldin prófkjör og raðað á framboðslista hjá stjórnmálaflokkum um land allt. Ekki er óalgengt að við það tækifæri sé nefnt hversu erfiðlega gangi að fá hæft fólk til að gefa kost á sér. Ein lausn á þessu væri sjálfsagt að hækka laun þingmanna verulega svo starfið freisti fleiri, ekki síst þeirra sem eru í vel launuðum störfum fyrir en almennt virðast menn gera ráð fyrir að þeir séu hæfari til að setja lög en aðrir. Önnur lausn kann þó að vera skynsamlegri. Það má minnka vinnuálagið á Alþingi með því að fækka viðfangsefnum þingsins; selja ríkisfyrirtæki, einkavæða skóla og sjúkrahús og draga saman í lagasetningu sem hefur keyrt út yfir öll skynsamleg mörk á undanförnum árum. Með þessu væri vafalaust hægt að draga svo úr álagi á þingmenn að þau laun sem þeir fá í dag þættu bara góð fyrir vikið. Þingið gæti þá komið saman þrisvar á ári til mánaðar í senn og afgreitt brýnustu lagabreytingar

Náttúruperlan Kerið í Grímsnesi er til sölu. Eigandinn segist orðinn þreyttur á yfirgangi opinberra aðila en Kerið er í eign ábúenda á Miðengi. Hefur Kerið verið boðið bæði umhverfisráðuneytinu og sveitarstjórninni þar eystra. Margt mælir gegn því að hið opinbera kaupi þessa náttúruperlu. Hið opinbera hefur meira en nóg með að sinna gæslu og verndun þeirra svæða sem það hefur þegar sölsað undir sig. Nær væri að draga þar úr og selja einstaklingum eða félögum þær náttúruperlur sem ríkið hefur á sinni könnu í dag. Einkaaðilar eru líklegri til að takmarka aðgang að svæðunum með gjaldtöku og nota hluta þess til að halda svæðunum við. Menn fara betur með eigið fé en annarra var einhvern tímann sagt og er sjálfsagt að endurtaka að þessu tilefni.

Því var lítill gaumur gefinn á dögunum er Gylfi Þ. Gíslason hætti í flokksstjórn Alþýðuflokksins eftir ríflega hálfrar aldar setu. En það hefur líka fleira breyst á þeim bæ sem hefur verið óbreytt um árabil. Alþýðuflokkurinn vill nú úrsögn Íslendinga úr NATO, ekki má ræða aðild að Evrópusambandinu svo nýju félagarnir í samfylkingunni heyri til og Sverrir og Bárður hafa stolið veiðileyfagjaldinu, helsta kosningamáli Alþýðuflokksins og væntanlegrar samfylkingar. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort fyrrverandi framsóknarkonan Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og fyrrverandi alþýðubandalagsmaðurinn Össur Skarphéðinsson verði ekki fulltrúar Alþýðuflokksins á lista samfylkingarinnar í Reykjavík, höfuðvígi flokksins til margra ára.
Þá hlýtur formaður Alþýðuflokksins Sighvatur Björgvinsson að geta blásið úr nös enda væri stefna Alþýðuflokksins horfin og bæði þingmenn og borgarfulltrúar flokksins í Reykjavík úr öðrum flokkum. Geri aðrir flokksformenn betur!