Föstudagur 2. október 1998

275. tbl. 2. árg.

Frumvarp til fjárlaga var birt landsmönnum í gær og var ekki annað á fjármálaráðherra að sjá en hann væri býsna ánægður með afurðina, þótt hann varaði að vísu við því að fara yrði varlega til að allt færi ekki úr böndum að nýju. Fjármálaráðherra hefur að ýmsu leyti ástæðu til að gleðjast, því á fjárlagafrumvarpinu eru jákvæðar hliðar. Í því er t.d. gert ráð fyrir niðurgreiðslu skulda hins opinbera, en þær hafa farið lækkandi og verða komnar niður í 27,6% af vergri landsframleiðslu ef áætlanir halda, en árið 1995 var þetta hlutfall afar hátt eftir nokkurra ára samdrátt, eða 39,7%.

Að auki getur ráðherra vissulega glaðst yfir því að leggja fram frumvarp með tekjuafgangi, en þó mætti hann að ósekju vera meiri, því hann mun snúast upp í tekjuhalla verði svipaðar breytingar frá fjárlögum á næsta ári og þessu. Á þessu ári skekktust áætlanir um útgjöld verulega og stafar það aðallega af því að launaliður ríkissjóðs hækkaði um rúmlega 20%. Það sem varð ríkinu til bjargar á þessu ári var hins vegar ekki niðurskurður á öðrum sviðum, heldur auknar skatttekjur vegna meiri umsvifa í efnahagslífinu en gert hafði verið ráð fyrir.

Og þarna er komið að einu sem veldur verulegum áhyggjum við þróun ríkisfjármála, en það er látlaus hækkun bæði tekna og gjalda. Þegar jafn vel árar og nú eykst hagvöxtur enn meira en umsvif hins opinbera, en menn geta hæglega gert sér í hugalund hvernig ástandið mun verða þegar í næstu niðursveiflu verður komið. Nú hækkar samneyslan um 3% á ári, en hagvöxtur um rúm 5%, þannig að umsvif ríkisins lækka sem hlutfall af landsframleiðslu og er það vissulega jákvætt. Það er hins vegar nokkuð ljóst að hagvöxtur mun ekki haldast á þessu róli til lengdar og raunar gera spár hins opinbera ráð fyrir að um og eftir aldamót verði hann kominn niður fyrir 3%. Hafi hinu opinbera ekki tekist að draga verulega úr útgjaldaaukningunni fyrir þann tíma mun það sama gerast og síðast þegar samdráttur varð í þjóðfélaginu, þ.e. hlutfallsleg umsvif hins opinbera munu aukast hratt. Og gallinn er sá að nú stöndum við verr að vígi en síðast þegar umsvifin tóku kipp, því þá voru umsvif hins opinbera lægri til að byrja með.

Af framansögðu má sjá að afar mikilvægt er að skera duglega niður bæði tekju- og gjaldaliði fjárlagafrumvarpsins áður en það verður samþykkt í desember. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað sést að af mörgu er að taka og engin ástæða til að óttast að ekki sé hægt að skera niður, hafi menn á annað borð kjark til að takast á við það verk. Þeim, sem óttast að það verði erfitt nú, má benda á að niðurskurður verður mun erfiðari þegar góðærið er gengið yfir.