Endurvinnsla er eitt af töfraorðum nútímans. Flestir stjórnmálaflokkar geta þess í stefnuskrám sínum að auka beri endurvinnslu og skrifræðisfyrirbæri eins og Evrópusambandið setja hreinlega lög um að endurvinna skuli flest milli himins og jarðar.
Íslendingar hafa um nokkurra ára skeið verið hvattir til að skila blaðapappír og fernupappa á sérstakar gámastöðvar. Eiga menn að skila fernunum samanbrotnum og hreinum (!) í sérstakan gám og blöðunum í annan.Í frétt DV á miðvikudag kom fram að þrátt fyrir að blöðin fari í eitt hólf á gámnum og fernurnar í annað ægir öllu saman þegar gægst er ofan í gáminn. Þá kom fram í viðtali við forstjóra Sorpu að pappinn er fluttur úr landi en andvirði hans nægir ekki fyrir flutningskostnaði.
Látum liggja á milli hluta að þessu sinni að þetta endurvinnsluævintýr er óhagkvæmt og skattgreiðendur borga brúsann eða fernuna. Umhverfisverndarsinnar taka hvort eð er aldrei mark á svoleiðis aukaatriðum. Á hitt má benda að rúntar almennings með fernur og gömul dagblöð á gámastöðvar og flutningur pappans úr landi krefjast orkunotkunar þ.e. aukins útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Umhverfisverndarsinnar vilja einmitt meina að útblástur gróðurhúsalofttegunda af manna völdum sé helsta umhverfisvandamál dagsins.
Að auki má benda endurvinnsluberserkjum á að ræktendur nytjaskóga til pappírsframleiðslu planta gjarna fleiri trjám en þeir höggva. Þegar endurunnum pappír er dælt inn á markaðinn minnkar þörfin fyrir nýjan pappír og um leið má búast við því að dragi úr skógrækt!