Gerhard Schröder, kanslaraefni jafnaðarmanna í Þýskalandi, er lentur í vandræðum nú rétt fyrir kosningar. Þar er ekki aðeins um það að ræða að flokkur kanslarans, Helmuts Kohls, hafi saxað á forskot jafnaðarmanna í skoðanakönnunum, þannig að nú munar ekki nema um þremur prósentustigum á stærstu flokkunum. Nú hefur bæst við að Schröder, sem einnig er forsætisráðherra í Neðra-Saxlandi, neitar að leggja fram fjárlagafrumvarp fylkisins á réttum tíma, en sá tími er fyrir kosningar. Að sögn viðskiptatímaritsins Wirtschaftswoche hefur Schröder ríkar ástæður til að hafa áhyggjur af stöðu mála í Neðra-Saxlandi, þar sé skuldum safnað hraðar en í flestum öðrum fylkjum Þýskalands og þar séu mikil fjárhagsvandræði.
Ekki er gott að segja hvar Schröder hefur lært þá tækni að fela skuldir fram yfir kosningar, en þó kann að vera að hann hafi í heimsókn sinni til Íslands þegið góð ráð hjá R-listamönnum, því á þeim bæ var einmitt beitt sama bragði. R-listinn vissi sem var, að hann næði ekki kosningu ef hann legði spilin á borðið hvað fjármál borgarinnar varðar. Þess vegna var sá kostur tekinn að neita að birta stöðuna fyrir kosningar, en halda því þess í stað ranglega fram að allt væri í himnalagi. Svo var skuldastaðan látin koma upp eftir kosningar, þegar of seint var orðið fyrir kjósendur að grípa inn í.
En það er fleira líkt með skyldum hér á landi og í Þýskalandi. Hinir nýju vinstri menn á báðum stöðum leggja allt upp úr glansímyndinni, en láta lítið hafa eftir sér um stjórnmál. Þannig hafa báðar síðustu kosningar hér á landi af stærra taginu, þ.e. til forseta og borgarstjórnar, farið út í það eitt af hálfu vinstri manna að endurskapa ímynd frambjóðanda þeirra. Hið sama hefur verið gert við Schröder í Þýskalandi og hefur fréttaritinu The Economist blöskrað svo skrumið að það spyr á forsíðu: Mundirðu kaupa notaðan bíl af Gerhard Schröder?
Fyrst talað er um glys, skrum og vinstri menn er hæpið að láta hjá líða að bæta lítilsháttar við umfjöllun gærdagsins um fund Gjósku, samtaka framagjarnra ungra sósíalista. Talsmaður samtakanna, Björgvin G. Sigurðsson, sagði í útvarpsviðtali eftir þennan fund samtakanna um helgina að stjórnmálamenn ættu að gera grein fyrir hagsmunatengslum sínum og eign sinni í fyrirtækjum. Það má benda talsmanninum á að gramsa fyrst innan eigin raða til að fletta ofan af þess háttar tengslum, enda eru þau víst vandfundin annars staðar. Það væri líklega helst að leita eftir svari frá Ágústi Einarssyni á því hvernig fjárfesting hans í Degi hafi nýst honum til að pota sér áfram í blöðum Frjálsrar fjölmiðlunar. Það er að minnsta kosti eftirtektarvert hve oft algerlega óháðum ritstjóra, Össuri Skarphéðinssyni, tekst af engu tilefni að minnast á þingmanninn í DV.