Í miðjum sameiningarórum vinstri manna hafa nokkrir einstaklingar skorið sig úr og stofnað nýtt félag vinstri manna. Héldu þó flestir að nóg væri af félögum þarna vinstra megin. En líklega er nokkuð til í því að þegar tveir vinstri menn hittast verða til þrjár fylkingar. Til að undirstrika muninn á sér og hinum vinstri mönnunum sem eru að sameinast var nýja félaginu gefið nafnið Stefna. Stefna hefur sett upp heimasíðu þar sem helstu stefnumálin eru kynnt en það er þó fljótleg lesning á nokkrum gömlum glamuryrðum vinstri manna og virðist svo sem ekki benda til að Stefna ætli að standa undir nafni.
Á einum stað segir: Stefna vill að metnaðarfulla umhverfisstefnu sem tryggir að auðlindir landsins verði sameign þjóðarinnar. Það var og. Einkenni á mörgum þeim umhverfisvandamálum sem mest hafa verið rædd að undanförnu er að þau snúa að sameignum eins og andrúmsloftinu og hafinu og þar er skortur á séreign einmitt einn helsti vandinn. Í gömlu ráðstjórnarríkjunum voru allar auðlindir í sameign. Það hafði mikil áhrif á efnahag landanna en um það þarf ekki að fjölyrða frekar því Stefna ætlar ekki að leggja til samyrkjubúskap af efnahagslegum ástæðum heldur vegna umhverfisins. Óvíða eru þó verri dæmi um slæma umgengni við náttúruna en einmitt í ráðstjórnarríkjunum og öðrum sæluríkjum sósíalista, þar sem hvað mestur metnaður hefur verið lagður í sameignarkerfið.
Björn Bjarnason menntamálaráðherra nefnir í Morgunblaðinu í dag annað dæmi um afturhaldssemi þessara vinstri manna. Hann bendir á að samningur við einkaaðila um fjármögnun og að hluta til rekstur nýrrar skólabyggingar Iðnskólans í Hafnarfirði hafi orðið til þess að tveir vinstri menn hafi geyst fram á ritvöllinn og mótmælt. Annar mun vera stjórnarmaður í Stefnu en hinn þingmaður Alþýðubandalagsins. Telur Björn að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að línur í stjórnmálum verði óskýrar á meðan vinstri menn berjast gegn slíkum framförum. Segir hann vinstri menn hér á landi enn að bögglast við að sanna, að best sé að setja allt traust sitt á afskipti ríkisins og eign þess jafnt á byggingum sem stofnunum.