Á mánudaginn var sýndur athyglisverður heimildaþáttur um sovétleiðtogann Lenín í ríkissjónvarpinu. Í þættinum, sem byggður er að nokkru á nýuppgötvuðum skjölum í höfuðstöðvum sovéska Kommúnistaflokksins, er flett ærlega ofan af hinni lífseigu goðsögn um alþýðuleiðtogann Lenín. Meðal annars er skýrt frá því hvernig þýska keisarastjórnin, stéttaróvinur samkvæmt skilgreiningu marxismans, greiddi götu valdaráns Bolsévika í Rússlandi og hlóð undir Lenín og kóna hans með háum fjárframlögum.
Lenín gekk fátt annað til en að brjóta Rússland undir sig og traðka alþýðuna niður undir járnhæl harðstjórnar og klíkuveldis, sem einkennt hefur stjórn kommúnista æ síðan. Ráðstjórninni í Rússlandi var komið á með einstöku grimmlyndi og algeru skeytingarleysi um mannslíf. Milljónir létu lífið í valdatíð Leníns, sem einatt leysti vanda stjórnar sinnar með tilskipun um um aftökur, pyntingar og nauðungarflutninga.
Umræddur heimildaþáttur geymir því kjarnann úr fordæmingu frjálslyndra manna á harðstjórn kommúnista og hörmungum sameignarskipulagsins. Því er það nokkuð kaldhæðnislegt að þýðandi og þulur þáttanna er enginn annar en Árni Bermann, einn einarðasti talsmaður og erindreki sovétskipulagsins á Íslandi um langt árabil.
Í leiðara Morgunblaðsins síðastliðinn föstudag fjallar starfsmaður þess um þá ákvörðun stjórnenda Íslandsbanka hf. að gera hluthöfum grein fyrir útgjöldum vegna risnu, laxveiða og ferða undanfarin fimm ár. Er blaðamaðurinn afar hrifinn af þessari ákvörðun og segir að eðlilegt sé að stjórnendur bankans geri grein fyrir þessum útgjöldum. Er mikið í húfi þar sem tortryggni hluthafa og annarra landsmanna vaknar að öðrum kosti! Nú varðar enga utan bankans um það hvað eigendur bankans ákveða að gera og ekkert er að því að stjórnendur eða meirihluti hluthafa í fyrirtæki ákveði að birta slíkar upplýsingar. En, að það hvarfli að nokkrum manni að menn eigi heimtingu á slíku, er ótrúlegt.
En það er líklega vegna þessara sjónarmiða sem Morgunblaðið hefur frá 1913 flutt linnulausar fréttir af risnu, laxveiði og ferðum Árvakurs hf.