Formaður Knattspyrnusambands Íslands segir að nýlegur árangur íslenska landsliðsins muni hafa jákvæð áhrif á starf sambandsins. Það er fagnaðarefni ef starfsemi hjá félagsskap áhugamanna um íþróttir eflist, því gera má ráð fyrir að það auki á ánægju þessara áhugamanna. Það er hins vegar að verða svo í seinni tíð að í hvert sinn sem Íslendingar ná árangri á einhverju sviði þurfa skattgreiðendur að óttast enn frekar um budduna sína en orðið er og dregur það því miður úr gleði þeirra. Þannig gerðist það t.d. nú, að formaður KSÍ lét sér ekki nægja að fagna og þakka fyrir þá aðstöðu sem íþróttinni hefur verið reist, heldur taldi hann að nú þyrfti að „myndast pólitísk samstaða“ um að bæta við stúkurnar í Laugardal. Mun æskilegra væri þó að við eyðsluhugmyndum myndaðist pólitísk andstaða.
Í dag hefst útboð á 15,38% viðbótarhlutafé í Landsbankanum. Það verður að teljast mikil vonbrigði fyrir þá sem gerðu sér vonir nú fyrr í sumar um að ríkisbankarnir yrðu einkavæddir að ekki skuli lengra gengið. Í útboðsgögnum Landsbankans er látið að því liggja að þetta sé einungis fyrsta skrefið í algerri einkavæðingu bankans.
Þó vill þannig til að í vor verða þingkosningar og er þá allsendis óvíst hvaða menn veljast til að fara með 84,62% hlut ríkisins í bankanum eða hvaða stefnu þeir hafa í einkavæðingarmálum. Það er hreint með ólíkindum að Verðbréfaþing Íslands skuli veita Landsbankanum undanþágu frá skilyrði um dreifða eignaraðild fyrir skráningu út á loforð núverandi stjórnar um eignarvæðingaráform næstu stjórnar. Miðað við framkomu stjórnvalda í samningaviðræðum um sölu bankanna fyrr í sumar hefði Verðbréfaþing ekki einu sinni átt að treysta loforði stjórnarinnar um eigin gerðir.
Þegar stjórnin hrökklaðist úr viðræðunum við Íslandsbanka, SE-bankann og sparisjóðina gaf hún þá ástæðu að hún hygðist ná „hámarksverði“ fyrir bankana. Nú bregður hins vegar svo við að hún lætur sér nægja að fá 1,7 milljarða fyrir 15,38% hlut í Landsbankanum, miðað við það er markaðsvirði bankans 11.053 milljónir og sé miðað við almenna útboðsgengið 1,90 er markaðsvirði hans 12.353 milljónir. Hlutfall markaðsvirðis og bókfærðs eiginfjár eftir útboðið er því 1,18 sé miðað við meðalgengið 1,70 en 1,3 sé miðað við gengið 1,90. Til samanburðar má geta að tilboð Íslandsbanka í Búnaðarbanka hljóðaði upp á hlutfallið 1,81.
Munurinn er sá að stjórnendur Íslandsbanka buðust til að kaupa yfirráð yfir Búnaðarbankanum. Hlut í Landsbankanum nú, fylgja engin áhrif um stjórnun bankans. Og þrátt fyrir að verð bankans sé ekki hátt er veruleg pólitísk áhætta fólgin í kaupunum. Hver veit nema að loknum næstu kosningum eigi Sverrir Hermannsson afurkvæmt í Landsbankann – með 85% eignarhlut ríkisins.