Í nýjum Stefni, tímariti ungra sjálfstæðismanna, er töluverðu rými varið í skrif um markaðssetningu og auglýsingamennsku í stjórnmálabaráttu. Það kemur svo sem ekki á óvart þar auglýsingaskrum og yfirborðsmennska hefur verið mjög áberandi í stjórnmálabaráttunni hér heima sem erlendis. Er skemmst að minnast borgarstjórnarkosninga í vor og forsetakosninga fyrir rúmum tveimur árum. Í Bretlandi og Þýskalandi má segja að auglýsingatrikk hafi leyst boðskapinn um sósíalisma af hólmi – a.m.k. meðan vinstri menn finna sér ekkert annað. Hvorki aðra vinnu né aðrar hugmyndir.
Allur undirbúningur vinstri flokkanna hér á landi fyrir sameiginlegt framboð í þingkosningum næsta vor markast af atvinnuhagsmunum þeirra stjórnmálamanna sem taka þátt í honum. Jafnvel Kvennalistinn sem hefur verið orðlagður fyrir að láta ekki stjórnast af öðru en einlægum hugsjónum stöðvaði „málefnaviðræður“ flokkanna á dögunum vegna þess að ekki var á hreinu hver fengi hvaða sæti á framboðslistunum vítt og breitt um landið. Þessi þróun kemur svo sem ekki á óvart, því þeir sem þekktir eru fyrir að vera með meiningar um hin ýmsu mál hafa verið að heltast úr lestinni einn af öðrum, Kristín Ástgerisdóttir, Steingrímur Sigfússon, Ögmundur Jónasson …
Þegar fréttir berast af tilteknum neikvæðum breytingum í náttúrunni vantar ekki að svonefndir umhverfisverndarsinnar túlki það sem enn eitt merkið um að allt sé á leiðinni norður og niður. Þeir benda jafnan á að „haldi sama þróun áfram“ verði ástandið svona og svona. Ekki er óalgengt að þróun síðustu ára sé einfaldlega framlengd inn í framtíðina. Oftar en ekki með línulegri framlengingu en ef það dugar ekki til að skjóta fólki skelk í bringu er gripið til veldisupphafningar. Sjaldan kemur þó fyrir að slíkar reiknikúnstir standist.
Undanfarna daga hafa borist fréttir af því að laxveiði hafi verið með besta móti í sumar, arnarvarp hefur ekki heppnast betur frá því farið var að fylgjast grannt með arnarstofninum og þorskstofninn er í uppsveiflu. Ef fyrrnefndum kúnstum væri beitt mætti segja að ef þessi þróun heldur áfram með veldisvexti næstu 50 árin verði hægt að hlaupa yfir flestar laxveiðiár landsins þurrum fótum enda þær barmafullar af fiski, örninn verður landlæg plága og réttdræpur eins og hver önnur rotta og við munum metta fimmþúsundir (milljóna) með þroskflökum.