Þriðjudagur 1. september 1998

244. tbl. 2. árg.

Bæjarstjórn Reykjavíkur er eins og útbelgdur sælgætisgrís sem fær aldrei nóg. Bæjarstjórnin er stærsti vinnuveitandi landsins enda hefur hún fjölbreyttan atvinnurekstur með höndum, allt frá rekstri tjaldstæða til orkufyrirtækja. Það þarf því vart að koma á óvart að bærinn hefur keypt húsið við Lækjargötu sem kennt er við Nýja bíó og varð eldi að bráð fyrir nokkurm vikum. Munar stórskuldugan bæjarsjóð ekki um 170 milljónir til þess arna. Samkvæmt fréttum mun bærinn ætla að rífa húsið og láta byggja nýtt og hefur bæjarstjórinn þegar ákveðið að á jarðhæð verði verslanir, svo skrifstofur og efst íbúðir en alls ekki veitingarekstur. Allt er þetta planað og ákveðið með sömu vissu og þegar skódeild sovéska klæðamálaráðuneytisins sendi kuldaskó suður fyrir Svartahaf en sandala norður í Síberíu.

Gunnar Smári Egilsson brá fréttaljósi á styrki hins opinbera til listamanna í helgarblaði DV nú um helgina. Gunnar Smári kemst þar að þeirri niðurstöðu að listamannalaun og aðrir opinberir styrkir séu listamönnum skeinuhættir. Þegar styrkri séu auknir dragist aðrar tekjur listamanna saman. Um þetta sýnir Gunnar dæmi frá árunum 1989 til 1996 en á þessum árum hafa styrkir til listamanna verið að aukast en tekjur þeirra engu að síður dregist saman „Reynslan sýnir að ríkið getur eyðilagt hvaða stétt sem er með því að styðja hana og styrkja.“ segir Gunnar í grein sinni. „Bændur grófu undan sjálfum sér, hver stórsigur þeirra í samningum við ríkisvaldið var í raun enn nýr fleinn í holdi þeirra. Bændur áttuðu sig á þessum mistökum sínum og eru farnir að að feta sig til sjálfsbjargar. Það er því dálítið undarlegt að á sama tíma skuli listamenn berjast fyrir því að fá notið sömu niðurlægingar og bændur máttu þola síðustu hálfa öldina eða svo.“

Þegar Díana prinsessa lést í bílslysi í fyrra var engu líkara en Morgunblaðið reyndi að leyna því fyrir Íslendingum. Ekki var sagt frá látinu í blaðinu fyrr en þremur dögum síðar. Prinsessan lést á laugardagskvöldi en Mogginn þagði yfir því fram á þriðjudag.. Í gær var ár liðið frá láti prinsessunnar. Og Morgunblaðið lét þess í engu getið.

„Ég er ekki stjórnmálamaður, ég hef aðeins áhuga á mannúðarmálum.“ – Díana prinsessa.