Í Morgunblaðinu í fyrradag má sjá að kvótahæsta fyrirtæki landsins, Samherji, sem ásamt ýmsum öðrum kvótaaðals-fyrirtækjum hefur víst rakað til sín veiðiheimildum á undanförnum árum, er með 5,6% kvótans. Já rétt, 5,6, ekki 15,6 eða 56,6! Þetta er nú öll eignatilfærslan og mesta samþjöppun í Íslandssögunni!
En eru eigendur fyrirtækisins þá svona fáir? Eru þeir kannski bara tveir eða þrír? Nei, beinir eigendur eru tæplega fimm þúsund, en óbeinir eru sennilega fimmtíu til hundrað þúsund gegnum aðild verðbréfasjóða, lífeyrissjóða og annarra fyrirtækja.
Eigi sömu kríteríur um samþjöppun að gilda um aðra atvinnuvegi væri þá væntanlega eðlilegt að skipta Flugleiðum upp í um þrjátíu fyrirtæki.
Eins ætti væntanlega að sundra Hagkaupum, Bónusi, Nóatúni og 10-11 upp í sem allra smæstar einingar og færa út eignaraðildina með skyldubundinni áskrift landsmanna. Þar með yrði kaupmaðurinn á hverju einasta horni og við næðum að hækka söluverð matvöru um, segjum, þriðjung.
Síðustu árin hafa menn þrætt um það fyrir dómstólum í Þýskalandi hversu hátt hlutfall af tekjum manna hið opinbera megi taka til sín. Hæstiréttur landsins komst að því fyrir þremur árum að hinu opinbera væri ekki heimilt að taka meira en helming tekna manna af þeim með sköttum, í hvaða formi svo sem skattarnir væru. Um þetta hefur síðan verið deilt og aðrir dómstólar komist að annarri niðurstöðu. Þótt þannig sé ekki ljóst hvaða heimildir hið opinbera hefur er þetta athyglisverð umræða. Það virðist yfirleitt álitið sjálfgefið að hið opinbera megi gera nánast hvað sem því sýnist, svo framarlega sem það setur lög því til stuðnings. Stjórnarskráin verndar menn að nokkru leyti, en þó hefur ríkið stundum verið lagið við að túlka hana sér í vil. Umræða um grundvallaratriði eins og hversu djúpt opinberum aðilum eigi að vera heimilt að kafa í vasa almennings væri vissulega til bóta hérlendis og gæti ef til vill orðið til að draga úr aðgangshörðustu stjórnmálamönnunum.