Nú stefnir í breytingar á kjördæmaskipan árið 2003 þ.e. árið eftir að Ísland verður orðið fíkniefnalaust. Af viðtali við forsætisráðherra að dæma í fréttum í gærkvöldi verða landsbyggðarkjördæmin stækkuð og Reykjavík og Reykjanesi skipt í fleiri kjördæmi. Alls verða kjördæmin því sjö nái þessi tillaga fram að ganga. Hvert um sig með 7 til 10 þingmenn. Aðalatriðið er þó auðvitað að atkvæðavægi verður jafnara en nú sem er gleðiefni.
Vafalaust þykir mörgum íbúum í þeim kjördæmum sem mest atkvæðavægi hafa haft nokkuð súrt í brotið að þingmönnum héraðsins fækki. En færa má rök fyrir því að þeir geti ekki síður glaðst en íbúar suðvesturhornsins sem hafa haft hlutfallslega fæsta þingmenn hingað til. Þegar þingmönnum sveitanna fækkar, fækkar nefnilega þeim klaufum á pilsfaldi ríkisins sem íbúar þeirra geta skotist inn um. Færri munu því sóa tíma sínum (og fé annarra) í fánýtum verkefnum á vegum hins opinbera sem þingmenn sveitarinnar hafa grenjað út á fundum fjárlaganefndar á Þorláksmessu.
Það hlýtur að vera umhugsunarefni að suðvesturhornið er eina uppgangssvæði landsins þrátt fyrir að íbúar þess, sem eru mikill meiri hluti landsmanna, hafi verið í minni hluta á Alþingi. Kann það að vera vegna þess að þeir hafa ekki vanist því að hringja í þingmanninn sinn þegar gefur á bátinn?
Ríkisstyrkir (bæði beinir fjárstyrkir og innflutningsvernd) til landbúnaðar hafa leitt til hægfara hnignunar í sveitum en án þeirra hefðu orðið hraðfara breytingar. Við vitum auðvitað ekki hvert þær breytingar hefðu leitt en nú hafa menn horft á eftir tugum ára og tugum milljarða í vonlitla baráttu fyrir hefðbundnum atvinnuvegum. Megi væntanlegar breytingar á kjördæmaskipaninni verða til þess að árið 2003 dregur úr styrkjafíkn um land allt.
Því er nú þannig farið að ætli einhver sá Íslendingur sem gefist hefur upp á að heimsækja sjálfan sig að fá vegabréf til annarra heimsókna en innanlands þá er það einfaldlega ekki hægt. Þetta geta menn sannreynt ef þeir ganga inn á lögreglustöðina við Hverfisgötu hér í Reykjavík og biðja um vegabréf. Svarið sem Olga Passportova gefur í afgreiðslunni er orðrétt: Ha! vegabréf, nei þau eru ekki til. Aðspurð hvort hægt sé að snúa sér til samkeppnisaðila svarar Olga Nei! og brosir svo undurblítt um leið. Það er að vísu hægt að fá eitthvert blað með stimpli á (að greiddu stimpilgjaldi að sjálfsögðu) sem á að notast með gamla útrunna vegabréfinu. Enginn skyldi þó fara í grafgötur með að það leiðir óhjákvæmilega til vandræða í vegabréfaskoðun erlendis með tilheyrandi tíma- og flugvélamissi. Menn geta séð sjálfa sig í anda, standa fyrir framan tollvörðinn með útrunnið vegabréfið og eitthvert pappírssnifsi mælandi þessi orð af vörum no mister custom officer, the Icelandic authorities ran out of passports you see, so they gave me this letter instead. No, no it’s alright I already have a hotel room, I don’t have to stay here for the night. No, I did not forget to take my medicine, and no there are no voices telling me to tell such stupid lies, it is the Georges honest truth.