Í ávarpi Bills Clintons aðfaranótt miðvikudags sagði hann að fólk ætti að fá að vera í friði með einkalíf sitt, jafnvel forseti Bandaríkjanna. Þennan lærdóm dregur forsetinn af því að sérstakur saksóknari hefur kynnt sér nokkuð hvernig rekkjubrögðum hans er háttað. Þetta er ánægjuleg kúvending hjá Clinton. Það er að segja ef satt er. Bill Clinton hefur nefnilega gert ítrekaðar tilraunir til að skipta sér af einkalífi annarra. Hann hefur bæði reynt að hindra að fullorðið fólk horfi á sjónvarp að vild heima í stofu og reynt að koma böndum á þá sem nota Internetið.
Bæði Clinton og ýmsir fjölmiðlar hafa svo lýst áhyggjum af því að forsetinn geti ekki einbeitt sér að störfum sínum á meðan fjölmiðlar hafa áhuga á kvennamálum forsetans. Þó flytja þessir sömu fjölmiðlar nákvæmar fréttir af kynlífi forsetans og hann sjálfur lætur sér standa – ekki alveg á sama.
Aðrir hljóta að fagna því ef svo stjórnlyndur forseti hefur lítinn tíma til annars en að gera hitt og þetta.
Eins og getið hefur verið um á þessum síðum og í öðrum fjölmiðlum flutti forseti Íslands ræðu á Hólahátíð um síðustu helgi. Ummæli hans þar voru þannig, að engum gat blandast hugur um að hann var að mæla gegn frumvarpi heilbrigðisráðherra um gagnagrunna á heilbrigðissviði. Sjaldgæft er að einstök ummæli forseta í hátíðarræðum verði tilefni deilna í þjóðfélaginu, en það er nú orðin raunin í þessu tilviki. Er það ekki að furða, því elstu menn minnast þess ekki að forseti Íslands hafi áður tekið opinberlega afstöðu gegn lagafrumvarpi, sem Alþingi á eftir að fjalla um og taka afstöðu til. Forsetinn er því ótvírætt að blanda sér í pólitískar deilur og þarf því að sjálfsögðu að sæta því að um embættisfærslu hans og ummæli verði framvegis fjallað á pólitískum forsendum.
Skiptar skoðanir eru um það hvort forsetaembættið eigi að vera hafið yfir stjórnmálaþrætur eða vera í raun pólitískt embætti. Um það blandast þó engum hugur, að forverar �?lafs Ragnars í embættinu hafa talið það skyldu sína að halda embættinu utan stjórnmálaátaka. Hann kann að vera annarrar skoðunar í dag, en eins og kjósendur minnast sagði hann skýrt og skorinort fyrir kosningar að hann hefði engan hug á að breyta eðli embættisins og ætlaði sér ekki að gera það pólitískara en verið hefði. Ummæli forsetans nú eru úr öllu samhengi við þá afstöðu sem fram kom fyrir kosningar. �?lafur Ragnar Grímsson skuldar því íslensku þjóðinni skýringar á því, hvers vegna hann sagði annað fyrir kosningar en hann gerir í dag, hvort að einhver atvik hafi orðið til að breyta afstöðu hans til þessa stjórnskipulega álitamáls eða hvort hann var einfaldlega að segja það í kosningabaráttunni sem hann hélt að kjósendur vildu heyra – óháð sinni eigin afstöðu.
Þeir sem vilja kynna sér nánar þau rök sem snerta umræður um gagnagrunnsfrumvarpið geta sleppt gæsaveiðiferðinni um helgina og setið ráðstefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna um málið á morgun klukkan 14:00 í Valhöll, Háaleitisbraut 1. Þar verða meðal ræðumanna Kári Stefánsson, Bernharð Pálsson, Þorgeir �-rlygsson lagaprófessor sem ræðir persónuvernd og gagnagrunna og Gylfi Magnússon hagfræðingur sem fjallar um það hvenær einkaleyfi eigi rétt á sér.
Nú vill Kenneth Starr eignast þvagsýni úr Clinton. Hver vill það ekki?