Miðvikudagur 19. ágúst 1998

231. tbl. 2. árg.

Hólahátíð var haldin á sunnudag. Hún er haldin til heiðurs Jóni Arasyni og hefur farið fram árlega frá árinu 1950, en þá voru 400 ár liðin frá því lúteranar drápu Jón. Í öndvegi á Hólahátíð nú voru biskupinn yfir Íslandi, Karl Sigurbjörnsson og forseti Íslands, �?lafur Ragnar Grímsson að nafni. Þeir sem vilja, geta velt fyrir sér hvað Jóni biskupi hefði þótt um slíkan gestalista, að minnsta kosti minnir Vefþjóðviljann að skipti Jóns við lúterska biskupa og veraldleg yfirvöld hafi ekki verið allt of vinsamleg á sínum tíma. Í tíð Jóns munu lúteranar ekki hafa verið sérstaklega velkomnir að Hólum og ekki mun Jóni hafa verið mikið gefið um þá sem áratugum saman sögðust sannfærðir um að guð væri ekki til og að þeir tryðu „svona einna helst á manninn“. En nú er allt slíkt gleymt og grafið og öllum fagnað á Hólum. Þar var líka margt gert til fróðleiks og skemmtunar.

Fyrir framan altarið í Hóladómkirkju hélt �?lafur Ragnar Grímsson ræðu. Er skemmst frá því að segja, að forseti Íslands tók þar að róa gegn væntanlegu frumvarpi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um gagnagrunn á heilbrigðissviði. (Áhugamönnum um stjórnskipunarrétt finnst svo gaman að hugsa til þess, að formlega er það ekki ráðherrann sem leggur frumvarpið fyrir Alþingi, heldur forseti Íslands, sbr. 25. grein stjórnarskrár lýðveldisins). Þetta tiltæki sameiningartáknsins vakti strax talsverð viðbrögð, bæði til lasts og lofs. Það verður að telja næsta einstætt að forseti Íslands taki upp á því að berjast opinberlega gegn væntanlegu stjórnarfrumvarpi, hvort sem það er undir rós eða fullum hálsi. Sumir hafa sagt að forsetinn hljóti að mega að hafa skoðun á því sem fram fer. Það er líka rétt, svo langt sem það nær. Hitt verða menn að muna, að þó persónan sem gegnir forsetaembættinu megi hafa sína skoðun, þá er ekki óeðlilegt að ætla að hún hafi, með því að taka starfið að sér, afsalað sér rétti sínum til að reifa skoðanirnar opinberlega. Það er að sjálfsögðu ekki óréttmæt skerðing á tjáningarfrelsi ef menn sjálfviljugir taka að sér störf sem leggja slíkar hömlur á þá.

Nú er ekki gott að segja hvað þeir hafi haft í huga sem fyrir tveimur árum kusu �?laf Ragnar Grímsson sem forseta Íslands. Þó verður að telja líklegt, að ýmsum þeirra hafi verið hugsað til ítrekaðra yfirlýsinga forsetaefnisins og stuðningsmanna þess, að næði �?lafur kjöri væri að sjálfsögðu lokið afskiptum hans af íslenskum stjórnmálum. Var það meðal annars notað í hinum látlausa áróðri sem skipulega var rekinn fyrir því að „stjórnmálaskoðanir foretaefnis skiptu engu máli“. Hefði �?lafur Ragnar boðað það fyrir tveimur árum að hann hyggðist sem forseti fara að berjast gegn þeim stjórnarfrumvörpum sem hann hefði efasemdir um, er ekki ólíklegt að fleiri en 60 % kjósenda hefðu látið ógert að kjósa hann. Þó veit maður aldrei, hópur þeirra sem ekki taka rökum er stór og skyldu menn ekki vanmeta hann.