Mánudagur 10. ágúst 1998

222. tbl. 2. árg.

Margir lesendur Vefþjóðviljans þekkja eflaust til Institute of Economic Affaires enda hafa fyrirlesarar frá IEA komið hingað til lands af og til og tímarit og bækur félagsins farið víða. Í Bretlandi starfar önnur svipuð stofnun, Adam Smith Institute, sem stofnuð var árið 1977 og hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt. Stofnunin hefur unnið sér gott orð í hugmyndavinnu fyrir ríkisstjórnir víða um heim ekki síst hvað almannatryggingar og einkavæðingu varðar. Á heimasíðu ASI er helsta starfsemi hennar kynnt. Þar er meðal ágætt yfirlit yfir helsta útgáfuefni stofnunarinnar.

Hvor á réttinn? Stangveiðimaðurinn sem rennir fyrir fisk í ánni eða verksmiðjueigandinn sem losar skólp út í ána?  Þetta er kunnugleg spurning enda vinsælt dæmi  úr kennslubókum. En til að svara þessari spurningu væri ágætt að vita hver á ána. Raunar bráðnauðsynlegt. Í flestum tilvikum sem ágreiningur skapast um eitthvað er eignarréttur óljós. Með öðrum orðum þegar „almenningur“, „þjóðin“ eða ríkið er talið  eiga eitthvað. Íslensk erfðagreining hefur að undanförnu undirbúið að skella upplýsingum um heilsufar Íslendinga í gagnagrunn sem nýta mætti til að rekja upptök sjúkdóma. Fleiri sýna þessu nú áhuga. Ekki er óeðlilegt að brautryðjendur njóti þess að koma fram með nýjar hugmyndir og njóti þess einnig að hafa lagt fé og tíma að veði. Þótt Íslensk erfðagreining hafi verið frumherji í þessu máli og hafi á þeirri forsendu gert kröfu um einkarétt á slíkum gagnagrunni er einni grunvallarspurningu enn  ósvarað. Hver á upplýsingarnar? Ríkið taldi sig eiga þær ef marka má upphaflegt lagafrumvarp um „gagnagrunninn á heilbrigðissviði“. Með nýju frumvarpi virðist sem heldur hafi verið dregið í land með það. Hvort ríkið getur úthlutað einhverjum einkaleyfi til notkunar á upplýsingum sem það hefur nú viðurkennt að eiga ekki hlýtur að vera vafamál.