Helgarsprokið 2. ágúst 1998

214. tbl. 2. árg.

Einkavæðing ríkisbankanna virðist loksins vera komin á dagskrá fyrir alvöru. Miðað við ummæli talsmanna beggja stjórnarflokkanna má búast við að sala á hlutabréfum ríkisins í þeim hefjist fljótlega og verði hraðað miðað við fyrri áætlanir. Þetta er ánægjuleg þróun sem ber að fagna. Hins vegar verður að lýsa nokkrum áhyggjum vegna ummæla framsóknarforystunnar, sem virðist ætla að haga sölunni með þeim hætti, að fyrirtækjablokk henni nátengd fái a.m.k. einn bankann í sinn hlut. Það er mikið áhyggjuefni ef ómálefnaleg sjónarmið af þessu tagi verða til þess að tefja framkvæmdina og skapa tortryggni vegna einkavæðingarinnar. Eðlilegast er að hlutabréf ríkisins verði seld sem fyrst og nýir eigendur og hlutabréfamarkaðurinn ákveði hver framtíð bankanna verður.

Það er kostulegt að fylgjast með viðbrögðum ýmissa stjórnarandstæðinga vegna hugmynda um sölu á hlutabréfum ríkisins í bönkunum. Þeir eru greinilega á móti, en þora fæstir að segja hug sinn í málinu og hengja sig því ýmis tæknileg atriði varðandi söluna. Það er helst �-gmundur  Jónasson sem er hreinskilinn í þessum efnum. Dæmi um viðbrögð stjórnarandstæðinga má sjá í svörum Ágústs Einarssonar í Morgunblaðinu á föstudaginn, en þar lætur hann ógert að lýsa afstöðu sinni til þess hvort hann styðji einkavæðinguna, en fer hins vegar mikinn í  yfirlýsingum um meinta spillingu ríkisstjórnarflokkanna og yfirvofandi fákeppni á fjármálamarkaðinum. Mestu risi nær þó málflutningur þingmannsins þegar hann fer að blanda bankamálinu saman við hugsanlega einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu. Þetta er óheiðarlegur málflutningur því hvort sem menn eru fylgjandi eða andvígir einkavæðingu í heilbrigðis- og menntamálum þá hljóta þeir að sjá að ekkert orsakasamhengi í pólítík er milli þess máls annars vegar og einkavæðingar bankanna hins vegar.