Útflutningsráð Íslands er til umfjöllunar í síðustu viku í viðskiptakálfi Moggans. Í pistli sem kallast Torgið er skrifað um ráðið og segir þar m.a. frá því að utanríkisráðherra hafi skipað nefnd til að endurskoða starfsemi þess. Í pistlinum segir einnig: „Það leikur enginn vafi á því að núverandi starfsumgjörð Útflutningsráðs getur ekki talist á allan hátt réttmæt, sérstaklega í ljósi þess að starfsemin er fjármögnuð með skattheimtu sem öll fyrirtæki hlíta, óháð því hvort þau notfæra sér þjónustuna eður ei. Slíkt flokkast undir forræðishyggju sem er ekki æskilegt fyrirbæri í heimi viðskipta.“
Undir þessi orð má taka og draga af þeim þá eðlilegu ályktun að ríkisvaldið hætti að skipta sér af útflutningi með þeim hætti sem gert hefur verið. Útflutningsráð ætti ekki að vera til sem ríkisstofnun greidd af skattfé heldur sem frjáls samtök fyrirtækja sem sjá sér hag í samvinnu á þessu sviði. Verslunarráð Íslands er vísbending um að fyrirtæki sjái sér hag í slíkri samvinnu, en geri þau það ekki er nær að treysta dómgreind þeirra en hins opinbera um hvernig fjármunum þeirra verður best varið.
Leiðarahöfundar Morgunblaðsins og DV fagna mjög um helgina vegna niðurstöðu skoðanakönnunar Gallups um afstöðu fólks til kvótakerfisins og veiðileyfagjalds. Í leiðurum blaðanna er niðurstaða skoðanakönnunarinnar einu „rökin“ gegn kvótakerfinu. Enda er geðshræring leiðarahöfundanna vegna þessarar skoðanakönnunar mikil. Í leiðara óháðs ritstjóra DV á laugardaginn mátti finna eftirfarandi gullkorn sem ritstjórinn verður vafalaust stoltur af eftir nokkra daga þegar geðsveiflan vegna könnunarinnar dvínar:
Þjóðin hafnar sægreifunum.
Mesta ranglæti lýðveldissögunnar felst í gjafakvótakerfinu.
Þjóðin hafnar því af hörku.
Ranglætið er á undanhaldi.
Eins og rjúpan hafa þeir rembst við hinn rangláta málstað.
Leynt og ljóst hafa stjórnarherrarnir barist gegn því að ranglæti gjafakvótans hverfi.
Ætla stjórnarherrarnir að standa gegn vilja eigin kjósenda?
Þeir hafa lofað og þeir hafa svikið.
En þeir hafa hummað og þeir hafa hikstað.
Gjafakvótakerfið.
Ætla þeir að taka ranglæti sægreifanna fram yfir réttlæti þjóðarinnar?
Stund reikningsskilanna rennur senn upp.
Niðurstaðan skellur á þeim eins og full fata af ísköldu vatni.
Öll spjót munu standa á þeim sem leggjast í vörn fyrir sægreifana.
Sóknin gegn þeim verður harðari en nokkru sinni fyrr.
Þess vegna mun flokkurinn (Sjálfstæðisflokkurinn) neyðast til að slaka á klónni sem verndar sægreifana.
Það er byrjað.
Innan hans (Framsóknarflokksins) er bæði ólga vegna ranglætis gjafakvótans og menn með réttlátt hjarta.
Framsóknarflokkurinn hlýtur einnig að hugsa sinn gang ef hann ætlar ekki að verða að pólítískur nátttrölli sem hverfur í björg bankanna.
Gjafakvótinn er því á hverfanda hveli.
Fyrr en seinna verður hann huslaður á öskuhaug sögunnar.
Það skal áréttað hér að ofangreindar tilvitnanir í orðsnillinginn Össur Skarphéðinsson eru úr EINUM leiðara DV.