Stundum er ekki gott að átta sig á því hvort menn eru að koma eða fara. Ágúst Einarsson skrifar grein í blaðið sitt Dag í gær. Greinin er um væntanlega sölu á ríkisbönkunum sem Ágúst er áfram um. En Jóhanna Sigurðardóttir, andlegur leiðtogi Ágústs, hefur árum saman sem ráðherra þvælst fyrir því að bankarnir væru seldir.
En Ágúst segist líka vilja meiri samkeppni á fjármagnsmarkaðinn og segir að „fákeppni á hinum litla markaði hérlendis er eitt helsta efnahagslega vandamál okkar.“ Skömmu síðar segir Ágúst: „Sú stefna ríkisstjórnarinnar að búa til nýjan ríkisbanka, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, úr Fiskveiðasjóði, Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði var röng og afturhvarf til fortíðar. Jafnaðarmenn lögðu til að sjóðirnir yrðu sameinaðir ríkisviðskiptabönkunum til að styrkja þá og hafin yrði sala þeirra“.
Það er sagt að Íslendingar eyði áður en þeir afla. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum ritar grein í Vesturland blað sjálfstæðismanna fyrir vestan. Þar segir hann að eðlilegt sé að tekjur af auðlindagjaldi renni til sveitarfélaganna a.m.k að hluta. Bætist Einar þar með í hóp fjölmargra sem þegar eru búnir að ráðstafa skattinum sem sem ekkert útlit er fyrir að lagður verði á landsmenn. Er hætt við að Sverri Hermannssyni gangi ekki betur en áður að fella 30 milljarða tekjuskattinn niður með 16 milljarða auðlindaskattinum eftir að helstu þjóðþrifamál hafa fengið sína hlutdeild í þessum skatti.