Í gær var þess minnst að 80 ár eru frá því að illþýði Leníns myrti rússnesku keisarafjölskylduna. Ekki stóð á rússneskum kommúnistum að mótmæla því að Jeltsin forseti tæki þátt í minningarathöfn þar sem líkamsleifum fjölskyldunnar var komið fyrir á virðulegri stað en þeim sem skúrkar Leníns völdu þeim. Það er raunar nokkuð útbreidd skoðun að Rússar hafi aðeins farið úr öskunni í eldinn þegar kommúnistar steyptu Romanov ættinni af stóli og tóku sjálfir við stjórninni, því keisarinn hafi ekki verið mikið skárri en kommúnistarnir. Ýmislegt bendir þó til annars. Þótt keisarinn hafi verið mistækur eins og aðrir sem hafa of mikil pólítísk völd var hann hátíð hjá þeim hrottum sem stjórnuðu Rússlandi næstu sjötíu árin.
Á valdatíma síðustu keisaranna voru að meðaltali 17 manns á ári teknir af lífi fyrir glæpi en aðeins ári eftir að Lenín tók við völdum voru yfir 1.000 manns líflátnir vegna afskipta af stjórnmálum. Í leynilögreglu keisarans, Okhrana, voru um 15.000 manns og lögreglan varð að afhenda dómskerfinu þá sem hún handtók og réttað var yfir þeim fyrir opnum tjöldum. Lenín stofnaði nýja leynilögreglu, Cheka, og innan þriggja ára voru í henni 250.000 starfsmenn og hafði hún sitt eigið réttarkerfi og þurfti því ekki að ómaka sig á opinberum réttarhöldum. Raunar segir sagnfræðingurinn Paul Johnson í bók sinni Modern Times að á síðustu árum keisaranna hafi Rússlands að ýmsu leyti verið frjálslegra þjóðfélag en Bretland og Frakkland voru á þessum stríðsárum.
Vilji menn fræðast meira um þá mannskæðu stjórnmálastefnu sem kallast kommúnismi er Safn kommúnismans hér á Netinu tilvalin byrjun. Þar er m.a. farið nokkuð ítarlega yfir margs konar voðaverk kommúnismans víða um heim, en einnig er athyglisvert að lesa um siðferðilegan samanburð á kommúnisma og nasisma í þeim hluta þessa vefsafns þar sem tekist er á við nokkrar algengar spurningar um kommúnisma. Þar er t.d. vitnað til orða Hitlers, sem sagði: „Það er fleira sem sameinar okkur og bolsévika en skilur okkur að. … Ég hef alltaf … skipað svo fyrir, að fyrrum kommúnistar fái aðgang að flokknum án tafar.“