Sverrir Hermannsson krati nr. 1 í dag boðar að veiðheimildir útgerðarfyrirtækja verði gerðar upptækar. Sverrir átti sjálfur veiðiheimildir fyrir nokkrum árum en seldi þær þegar hann hafði fengið stól bankastjóra í Landsbankanum. Nú er það spurning hvort Sverrir ætlar að endurgreiða þeim sem hann seldi veiðileyfin. Hver á að bera skaðann í þeim tilvikum sem kvótinn hefur skipt um eigendur?
Sverrir hefur einnig sagt frjálshyggjunni stríð á hendur en lofar að taka upp markaðskerfi í sjávarútvegi fái hann stuðning til.
Sverrir segist einnig ætla að fella niður allan tekjuskatt einstaklinga með því að innheimta 16 milljarða veiðileyfagjald en tekjuskatturinn er 30 milljarðar. Sverrir ætlar líka að berjast gegn því að sjómenn þurfi að taka þátt í kvótakaupum og telur það best gert með því að ríkið bjóði útgerðum kvótann til sölu á fimm ára fresti!
Eins og boðað hefur verið með fréttatilkynningum á alla fjölmiðla situr sjálfur Dagur B. Eggertsson nú og skrifar ævisögu Steingríms Hermannssonar höfðingja. Er hið væntanlega merkisrit meðal annars kynnt í nýju tölublaði innihaldsríkasta rits landsins, „Séð og heyrt“ og er þar birt stór litmynd af Degi og ein lítil af Steingrími. Segir Dagur þar að Steingrímur sé „ekki einn af þeim sem eru sífellt að rifja upp lífssögu sína heldur þvert á móti talar hann fremur um það sem er efst á baugi hverju sinni.“
Af hverju skyldi það nú vera…?