Frétt í Morgunblaðinu á dögunum hefur vafalaust vakið ugg hjá einhverjum. Í fréttinni var sagt að það væri ,,yfirvofandi á næsta ári að mannfjöldi á jörðinni færi yfir 6 milljarða. Var ekki annað á fréttinni að skilja en að það væri fremur varasöm þróun að fleiri og fleiri spásseruðu um á jörðinni, en það sjónarmið er nokkuð undarlegt í ljósi þess að fólksfjölgun má rekja til bætts heilsufars, meira langlífis, aukinna lífslíka nýfæddra og annars sem yfirleitt mætti ætla að væri fagnaðarefni.
Því hefur raunar verið spáð um aldir að mikil ógn stafi af auknum fjölda fólks. Lærðir spekingar hafa reiknað með ýmsum kúnstum að á endanum muni jörðin ekki geta brauðfætt fjöldann og náttúruauðlindir gangi til þurrðar. Þessar reiknikúnstir hafa ekki gefið góða mynd af því sem á eftir hefur komið, enda er vonlaust að reikna tækinýjungar og framfarir út en þær gjörbreyta möguleikum mannsins til að afla sér fæðu og nýta náttúruauðlindir. Matvælaframleiðsla hefur til dæmis vaxið mun hraðar en fólksfjöldi á þessari öld þökk sé ýmsum nýjungum eins og stórvirkum vinnuvélum og áburði. Þá leysa tækninýjungar náttúruafurðir af hólmi (t.d. ljósaperan sem leysti ljósaolíuna af hólmi). Verð flestra náttúruafurða hefur fallið undanfarna áratugi sem bendir ekki til þess að eftirspurn eftir þeim hafi vaxið hraðar en framboð.
Umhverfisverndarsinnar hafa hin síðari ár notað aukinn fólksfjölda sem grýlu á almenning. Í mörgum þéttbýlum löndum er þó mikil velmegun og í mörgum dreifbýlum löndum er ástandið miður gott, þannig að tæplega er hægt að segja að bein tengsl séu milli þéttbýlis og lífsgæða.
Þess má að lokum geta, til að róa þá sem óttast að mannskepnan fari brátt að yfirfylla jörðina, að mjög hefur hægt á fólksfjölgun í heiminum að undanförnu. Á sjöunda áratugnum var fjölgunin 2% á ári sem er það mesta sem menn þekkja. Ef fram heldur sem horfir verður fjölgunin komin niður í 1% á ári árið 2025 og mun hafa stöðvast fyrir 2100.