Nú um helgina fer fólk í fyrsta sinn í tæp 30 ár á böll og bíó án skemmtanaskatts. Tekjutap ríkisins vegna þessa er um 70 milljónir króna og hefði sú upphæð að skaðlausu mátt verða eftir í vösum skattpíndra landsmanna. En ríkið gætir þess ævinlega að fara ekki halloka í viðskiptum sínum við almenning, þannig að það bætir sér upp tjónið með því að hækka áfengisgjald.
Þetta ætti að minna þá, sem krefjast skattahækkana nú, á að þegar ríkið hefur einu sinni fundið leið í vasa fólks þá hættir það sjaldan að nota hana. Ríkið hefur nefnilega þann leiða sið að gæta hagsmuna sinna frekar en almennings og að túlka allan vafa sér í vil. Þess vegna er ekki bara varasamt að samþykkja skattahækkanir og nýja skatta heldur eru skattbreytingar líka varasamar. Sem dæmi má nefna að þegar virðisaukaskatturinn var tekinn upp í stað söluskatts fyrir nokkrum árum var hann hafður u.þ.b. tveimur prósentustigum hærri en hann þurfti að vera til að ná sömu tekjum og áður. Ríkið ákvað að nota tækifærið við kerfisbreytinguna til að krækja í nokkrar krónur aukalega.
Öfugmælavísur íslenskrar byggðastefnu eru orðnar svo útjaskaðar, að fæstir kippa sér upp við að heyra þær. Þannig höfum við oft þurft að hlusta á ræður um hve réttlátt sé, að atkvæði manna vegi misþungt eftir búsetu þeirra og hve hagkvæmt sé að ríkið ausi skattpeningum okkar í að berjast gegn óeðlilegri byggðaröskun. Þá má ekki gleyma því að það ku vera nauðsynlegt að verja nokkrum milljörðum af skattfé í að styðja við hefðbundinn búskap á Íslandi. Sannfæringin á bak við þessar byggðastefnutuggur er þó orðin svo veik, að jafnvel hugdjörfustu riddarar stefnunnar skirrast við að nota þær í málflutningi sínum. Þegar Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra flutti Landmælingar ríkisins nauðungarflutningum frá Reykjavík til Akraness, treysti hann sér þannig ekki til að lýsa þeirri ákvörðun sinni sem réttlátri, hagkvæmri eða nauðsynlegri, heldur lét við það sitja að lýsa henni sem pólitískri.
Ein vinsælasta öfugmælavísan sem nú er kveðin af mörgum byggðastefnumanninum, snýst um að það vanti atvinnutækifæri fyrir menntað fólk á landsbyggðinni. Þennan söng mátti t.d. heyra sunginn í hverju viðtalinu á fætur öðru við nýkjörna sveitarstjórnarmenn, og hann heyrðist einnig sunginn í tilefni af fyrrnefndum nauðungarflutningum. Öfugt við þær klisjur sem nefndar voru hér að ofan, hafa fáir orðið til að andmæla þessu og líklegt er að þeir sem halda þessu fram, trúi því í raun og veru að svona sé þessu farið. Sú mynd sem með þessu er dregin upp, sýnir æskufólk streyma úr byggðunum til að leita sér mennta, en komast svo að því eftir námið, að það er enga vinnu við þess hæfi að fá í sveitinni heima, svo því er nauðugur einn kostur að setjast að í sollinum í Reykjavík. Næsta skref í röksemdafærslunni er svo, að það sé réttlátt, hagkvæmt og nauðsynlegt að ríkið styðji við uppbyggingu atvinnutækifæra á landsbyggðinni.
Staðhæfingin um að það vanti atvinnutækifæri fyrir menntað fólk á landsbyggðinni stenst þó ekki nánari skoðun, fremur en hinar fyrrnefndu. Þannig er auðvitað ljóst, að ef fjöldi menntaðra einstaklinga biði í röðum eftir að komast heim í heiðardalinn til að vinna, myndi það þrýsta launum menntaðs fólks á landbyggðinni niður. Mætti því búast við því, að laun verkfræðinga, endurskoðenda, lögfræðinga og lækna væru umtalsvert lægri þar en á höfuðborgarsvæðinu. Íslensk fyrirtæki myndu áreiðanlega hagnýta sér ástandið og gætu stærri endurskoðunarskrifstofur og verkfræðistofur t.d. flutt höfuðstöðvar sínar út á land þar sem hæft fólk myndi bítast um stöðurnar fyrir lægri laun en í borginni. Allir vita hins vegar að raunveruleikinn er allt annar. Erfitt er að manna ýmsar stöður á landsbyggðinni og greiða verður menntuðu fólki ríflegar staðaruppbætur í ýmsu formi til að það fáist til að gegna þeim. Þetta ætti íslenska ríkið raunar að vita betur en nokkur annar. Hærri meðallaun menntaðs fólks á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, sýna svo ekki verður um villst, hve goðsögnin um skort á atvinnuframboði þar fyrir menntað fólk er fjarstæðukennd.
Staðreyndin er sú, að mikill fjöldi fólks, þar á meðal menntað fólk, hefur undanfarna áratugi kosið að flytjast úr dreifbýli í þéttbýli vegna þess sem þar er í boði. Væri stjórnmálamönnum nær að virða þetta val, en að éta hver upp eftir öðrum augljósar ranghugmyndir um veruleikann í því skyni að búa til störf á landsbyggðinni fyrir fólk sem greinilega vill fremur vera annars staðar.