Jón Kristinn Snæhólm stjórnmálafræðingur skrifaði litla en athyglisverða grein í Morgunblaðið í gær. Þar greinir hann frá því að virt, breskt fréttablað hafi haft það eftir Svani Kristjánssyni, prófessor í stjórnmálafræði, að úrslit sveitarstjórnakosninganna í vor hafi verið mesta tap Sjálfstæðisflokksins og mikilvægasti sigur vinstriafla á Íslandi og bætir því við að óánægja með ríkisstjórnina hafi vaxið vegna ásaka um spillingu og vanhæfni. Jón Kristinn rekur síðan í stuttu máli hvers konar rangfærslur þetta eru hjá Svani og bætir við upplýsingum um meintar ávirðingar hans.
Í sjálfu sér er ekki fréttnæmt að Svanur Kristjánsson láti pólitíska afstöðu sína ráða ferðinni þegar hann leggur mat á stjórnmálaástandið í landinu. Svanur hefur lengi prédikað fagnaðarerindið um sameiningu vinstri flokka og flokksbrota og hefur notað hvert tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, mjög oft undir yfirskini einhvers konar fræðimennsku. Svanur hefur þannig fyrir löngu náð að gera sig fullkomlega ómarktækan sem stjórnmálaskýrandi og ekki virðist liggja betur fyrir honum að spá fyrir um þróun mála. Spádómar Svans um stjórnmálaþróun hafa undantekningarlítið reynst rangir síðustu 20 árin og sætir furðu hversu margir fjölmiðlamenn telja enn ástæðu til að bera mál undir hann. Í sjálfu sér væri miklu áhugaverðara fyrir útvarpshlustendur og lesendur blaðanna að kynnast nánar skoðunum Svans í siðferðilegum efnum, en á því sviði hóf hann upp raust sína í vor með eftirminnilegum hætti til að mótmæla birtingu Morgunblaðsins á myndum af léttklæddum konum. Var helst á skrifunum að skilja að fátt væri fólki hættulegra en að sjá annað fólk fatalítið.
Með undarlegum afskiptum af viðskiptum einkaaðila, eins og í máli Myllunnar-Brauðs og Samsölubakarís, hefur Samkeppnisstofnun minnt óþægilega á forvera sinn, Verðlagsstofnun, og verið til óþurftar. Nýr úrskurður Samkeppnisráðs um dagvistarmál í Reykjavík skýtur heldur ekki stoðum undir að samkeppnisyfirvöld séu að vinna gagn. Málið er þannig vaxið að fyrir tæpu ári barst Samkeppnisstofnun kvörtun frá Elínu Sigurðardóttur um að Reykjavíkurborg mismunaði leikskólum, þar sem borgin niðurgreiddi eigin leikskólarekstur meira en einkareknu leikskólana. Úrskurður Samkeppnisráðs hljóðar í stuttu máli upp á að samkeppnisyfirvöld geri ekkert þrátt fyrir þessa mismunun Reykjavíkurborgar.
Nú þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart að hið opinbera þvælist fyrir einkaaðilum með öllum tiltækum ráðum. Það er þó heldur langt gengið að þessir sömu einkaaðilar þurfi með skattgreiðslum að halda uppi sérstökum stofnunum sem gera lítið annað en þvælast fyrir frjálsum viðskiptum þeirra á milli. Ætli Samkeppnisstofnun að halda áfram á þeirri braut í stað þess að verða einkaaðilum að liði hlýtur að líða að því að hún verði lögð niður. Sá niðurskurður drægi líka úr þenslu og þannig mætti slá tvær flugur í einu höggi.