Nú segist Steingrímur Hermannsson hafa áttað sig á því að ekki sé þörf á þremur bankastjórum við Seðlabankann. Það er skemmtileg tilviljun hvað þessi uppgötvun Steingríms kemur á heppilegum tíma fyrir hann sjálfan. Hefði hugmyndinni skotið upp í huga hans fyrir nokkrum misserum hefði hún væntanlega sparað skattgreiðendum bæði laun hans og utanlandsferðir fyrir umhverfissvið Seðlabankans.
Hinn nýkjörni borgarfulltrúi R-listans, Hrannar B. Arnarsson, hefur nú formlega óskað eftir því við borgarráð að fá leyfi frá störfum í borgarstjórn, a.m.k. þangað til opinberum rannsóknaraðgerðum á skattamálum hans er lokið. Er þetta í samræmi við yfirlýsingar, sem hann gaf eftir að ýmis fjármálaumsvif hans og félaga hans Helga Hjörvar voru komin í hámæli og tilraunir þeirra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til að breiða yfir málið höfðu mistekist. Það sem er athyglisvert núna, er að skoða hvers vegna Hrannar telur nú eftir kosningar að óheppilegt sé að hann gegni trúnaðarstörfum fyrir Reykvíkinga. Ekki taldi hann það óheppilegt þegar hann gaf kost á sér í prófkjöri R-listans snemma á þessu ári og ekki heldur þegar hann tók sæti á listanum fyrir kosningarnar í vor. Hann taldi opinbera rannsókn á skattamálum sínum ekki vera til neinnar fyrirstöðu þegar hann barðist fyrir því að ná kjöri í borgarstjórn, a.m.k. ekki fyrr en opinberlega hafði verið vakin athygli á stöðu mála.
Hrannar taldi það með öðrum orðum eðlilegt að hann gegndi trúnaðarstöðum fyrir borgarbúa, þrátt fyrir vafasaman feril í viðskiptum og skattalagabrot, þangað til þessum sömu borgarbúum varð ljóst hvernig málum var háttað. Hér er auðvitað um athyglisverð siðferðisviðhorf að ræða. Þau eru hins vegar því miður ekki einsdæmi, því R-listinn hefur kosið að heiðra fyrrum viðskiptafélaga Hrannars, fyrrnefndan Helga Hjörvar, með stöðu forseta borgarstjórnar að ári. Auk þess mun oddviti R-listans sitja áfram í borgarstjórastólnum þrátt fyrir að hún hafi verið staðin að því að vera margsaga og segja beinlínis ósatt í kosningabaráttunni þegar mál Hrannars og Helga bar á góma.
Þessu hafa verið gerð furðu lítil skil í fjölmiðlum og undrun vekur hversu lítilli andstöðu endurráðning borgarstjóra mætti í borgarstjórn. Ýmsir hefðu álitið eðlilegt að minnihlutinn léti koma skýrt fram að hann teldi borgarstjóra ekki lengur trausts verðan, en þegar á reyndi var aðeins einn fulltrúi minnihlutans, Kjartan Magnússon, á móti því að borgarstjóri yrði endurráðinn.