Eitt af því sem gerir baráttuna gegn auknum umsvifum hins opinbera erfiða er að umsvifin aukast sjaldnast í stökkum heldur hægt og bítandi. Fólk verður t.d. varla vart við þá hækkun upp á 1,20 krónur á lítra sem varð á bensíngjaldi um daginn, en þegar litið er nokkur ár til baka sést að samanlögð hækkun er veruleg. Þannig hefur, skv. upplýsingum Olíufélagsins, hækkunin á 95 oktana bensíni verið 14,20 krónur á lítra, en þar af hefur hið opinbera átt 11,80 krónur eða um 83%. Ef hið opinbera skellti slíkri hækkun á landsmenn í einu vetfangi yrðu væntanlega hávær mótmæli, en þegar hækkunin er rúm króna í hvert sinn nennir enginn að opna munninn. Þessu þarf að breyta. Fólk á ekki að láta bjóða sér nokkra hækkun á gjöldum hins opinbera eða aukin umsvif að öðru leyti. Nóg er komið; draga verður línu í sandinn svo notað sé líkingamál af öðrum vettvangi.
Á Rás 2 í gær var rætt við Boga Ágústsson forstöðumann markaðs- og þróunarsviðs Ríkisútvarpsins. Umræðuefnið var hugsanleg breyting á stofnunni RÚV í hlutafélagið RÚV og lýsti Bogi þeirri skoðun sinni að heppilegra væri fyrir stofnunina að verða hlutafélag. Taldi hann að RÚV yrði þá betur í stakk búið að bregðast við breyttum aðstæðum á fjölmiðlamarkaði og gæti staðið sig betur í samkeppninni við aðra fjölmiðla. Spyrillinn á Rás 2 velti fyrir sér hvort þetta þýddi ekki bara að RÚV yrði selt, rétt eins og það væri eitthvað sem bæri að varast.
Ekki var hins vegar rætt í þessu viðtali um það hvort eðlilegt væri að ríkið ætti fjölmiðil og ræki fréttastofu. Það virtist heldur ekki mikill áhugi á að ræða skyldugreiðslur til RÚV og það óeðlilega forskot sem RÚV fær þar með fram yfir aðra á þessum markaði. Starfsmaður Rásar 2 virtist hins vegar hafa mikinn áhuga á því að sjálfstæði Ríkisútvarpsins yrði sem mest, en eins og Bogi benti á hljóta eigendurnir að hlutast til um málefni fyrirtækisins og í þessu tilviki er ríkisvaldið fulltrúi eigendanna.
Eina raunhæfa leiðin til að draga úr afskiptum ríkisvaldsins af Ríkisútvarpinu er að draga ríkið út úr fyrirtækinu. Einfaldasta leiðin er væntanlega að breyta því í hlutafélag og selja svo hlutina. Eftir það þarf enginn, nema sá sem sjálfviljugur á í fyrirtækinu eða greiðir fyrir áskrift að dagskrá þess, að kvarta vegna lélegrar dagskrár eða hlutdrægrar umfjöllunar.