Nú stendur til að rýmka reglur um afgreiðslutíma kráa á Bretlandi, þannig að almenna reglan verði sú að afgreiðslutíminn sé alveg frjáls, en hingað til hafa reglur um þetta efni verið afar stífar þar í landi. Íslendingar hafa svo sem ekki farið varhluta af slíkum reglum og eins og kunnugt er sendir hið opinbera menn í háttinn klukkan eitt eftir miðnætti á virkum dögum en leyfir þeim að vera úti til klukkan þrjú um helgar. Nú stendur til í borgarstjórn að rýmka reglurnar dálítið, en áhugi er ekki hjá meirihlutanum að gefa afgreiðslutímann alveg frjálsan eins og minnihlutinn lagði til fyrir síðustu kosningar.
Slíkar reglur um afgreiðslutíma, hvort sem þar eiga í hlut krár eða önnur fyrirtæki, eru enn eitt dæmið um forsjárhyggju hins opinbera. Fólki er ekki treyst til að koma sér saman um það hvenær það vill eiga viðskipti, heldur hlutast opinberir aðilar til um að þau fari fram þegar þeir sjá ástæðu til. Ýmis rök hafa verið færð fyrir þessari íhlutun hins opinbera í gegnum tíðina, en þau skástu eru líklega að langur afgreiðslutími kunni að valda þriðja aðila óþægindum. Slíkan vanda er þó eðlilegra að leysa með öðrum hætti, þ.e. með því að hafa almennu regluna þá að afgreiðslutíminn sé frjáls, en valdi starfsemi þriðja aðila óeðlilegum óþægindum þá verði afgreiðslutíminn takmarkaður.
Andstæðingum reykinga í San Francisco virðist ekkert heilagt og líta þeir augsýnilega svo á að reykingamenn séu með öllu réttlausir. Nú hafa yfirvöld þar bannað reykingar í flestum opinberum görðum borgarinnar og þar með hefur enn verið þrengt að reykingamönnum, en áður hafði reykingum verið úthýst úr öllum veitingastöðum borgarinnar. Þegar veitingastaðirnir voru annars vegar voru þau rök notuð fyrir banninu að óbeinar reykingar gætu skaðað aðra gesti, þótt ekki sé að vísu vitað til að nokkur hafi verið neyddur til að sitja í reykjarkófi á veitingastað.
Það er vægast sagt hæpið að ætla að setja eigendum veitingahúsa fyrir hvort gestir þeirra mega reykja eða ekki, en að ætla að banna fólki að reykja úti undir berum himni hlýtur að kalla á afar fjarstæðukennda röksemdafærslu. Líklega álíta andstæðingar reykingamanna þetta ósið, sem ekki eigi að hafa fyrir öðru fólki. Það verður hins vegar að gera skýran greinarmun á því hvort hegðun fólks er öðrum hugsanlega hættuleg eða hvort hún er bara ósiðleg eða jafnvel sóðaleg í augum einhverra. Ef hið opinbera er farið að leggja mönnum lífsreglurnar með þessum hætti fer að styttast í reglur á borð við þær sem hingað til hafa ekki þótt til fyrirmyndar í lýðræðisríkjum, eins og t.d. reglur Talebana í Afganistan um skeggvöxt karla og klæðnað kvenna.