Í dag er fæðingardagur tveggja af áhrifamestu hagfræðingum sögunnar. Áhrif þeirra hafa þó verið afar ólík, því annar átti á sínum tíma stóran þátt í minnkandi afskiptum ríkisvaldsins en hinn í auknum áhrifum þess.
Annar þessara hagfræðinga, Adam Smith, fæddist þennan dag árið 1723 í Kirkcaldi í Skotlandi. Hann var prófessor í rökfræði og siðfræði en helsta ritverk hans er hagfræðibókin Auðlegð þjóðanna (1776) og hafa skrif hans um hagfræði orðið til þess að hann hefur stundum verið nefndur faðir hagfræðinnar. Þegar hann var uppi var kaupauðgistefna (merkantilismi) alls ráðandi, en hún gengur út á að lönd hefti milliríkjaviðskipti með ýmsum hætti, byggi upp tollmúra og leggi aðaláherslu á útflutning. Svipað fyrirbæri og útflutningsstefna Alþýðubandalagsins undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir nokkrum árum. Þessi stefna var Adam Smith þyrnir í augum, þar sem hann kom auga á að frjáls viðskipti væru öllum þjóðum mikilvæg.
Þetta var rökrétt afleiðing hugmynda hans um ósýnilegu höndina“, en hún gengur í stuttu máli út á að þegar menn keppa að eigin hag á frjálsum markaði verða þeir öðrum einnig til gagns. Ósýnileg hönd” leiðir þá réttan veg, því menn geta ekki unnið að eigin hag nema taka tillit til hagsmuna annarra.
Hinn hagfræðingurinn sem hér er rætt um er John Maynard Keynes, en hann fæddist þennan dag árið 1883 í Cambridge á Englandi. Hans þekktasta verk er Almenna kenningin (1936) og er það vafalítið áhrifamesta hagfræðirit þessarar aldar, þótt áhrifin hafi tæplega verið af hinu góða. Keynes taldi að klassísk hagfræði gæti ekki svarað þeirri spurningu hvernig bregðast ætti við kreppu eins og þeirri sem reið yfir í kringum árið 1930. Taldi hann svarið felast í auknum útgjöldum hins opinbera, þar sem markaðurinn gæti ekki af sjálfsdáðum unnið sig út úr slíkum vanda.
Afleiðing þessarar ályktunar sem Keynes dró af kreppunni hafa svo orðið þær að sumir hafa, jafnvel allt fram til dagsins í dag, álitið að ríkisvaldið væri vel til þess fallið að grípa inn í þegar eitthvað bjátaði á í efnahagslífinu. Og þótt þessar hugmyndir hafi verið hraktar með ýmsum hætti hafa þær átt stóran þátt í mikilli verðbólgu og annarri afleiðingu slæmrar (of mikillar) hagstjórnar hér á landi sem annars staðar.
Þannig má sjá að menn með hugmyndir, hvort sem er í hagfræði, stjórnmálum eða annars staðar, skipta verulegu máli og geta haft mikil áhrif bæði til skamms og langs tíma. Menn án hugmynda, eða með dauðar hugmyndir, geta hins vegar í mesta lagi orðið bólur, sem hjaðna fljótt og hverfa. Þetta er einmitt höfuðvandi vinstri manna í dag.