Í blaði sem R-listinn gaf út fyrir kosningar var viðtal við Helga Hjörvar um eitt og annað. Helgi minnist tvisvar á Hróa hött úr Skírisskógi. Fyrst segist Helgi hafa dáðst að Hróa í æsku og svo er hann spurður um hvers vegna hann hafi valið þessa hlið í pólitíkinni og svarar að bragði: Mér fannst líka alveg frá fyrstu tíð Hrói höttur vera góður gæi.
Nú er ekki gott að segja hvers vegna vinstri menn gera sér dælt við Hróa heitinn hött. Sumir sem dást að Hróa gera það fyrir þá sök að hann var duglegur að koma peningum undan skattheimtumönnum ríkisins. Ef til vill er það ástæðan hjá Helga. Hvað sem því líður ættu gamlir og nýir aðdáendur útlagans í Skírisskógi að hafa í huga að Hrói Höttur lét sér ekki nægja að koma peningum undan ríkinu – hann færði þá fátækum.
Sverrir Hermannssonar gerist vígreifari með hverjum deginum. Hann virðist halda að Landsbankamálið hafi gert hann að einhvers konar alþýðuhetju, því nú ætlar hann að eigin sögn í framboð í öllum kjördæmum landsins. Baráttumál framboðsins mun eiga að vera að berjast gegn kvótakerfinu, en líklega er minna ljóst hvað á að koma í staðinn. Það er furðulegt að ætla að byggja heilt framboð á því einu að hamast gegn hagkvæmasta og réttlátasta kerfi sem völ er á til fiskveiðistjórnunar, en það er kannske í stíl við annað varðandi þetta væntanlega framboð.
Menn eru þess vegna þegar farnir að tala um að fyrir næstu kosningar muni ekki aðeins verða boðið upp á nýtt framboð jafnaðarmanna heldur líka ójafnaðarmanna. Stjórnmálin á Íslandi verða æ undarlegri.