Á Rás 2 í gærdag var einn af starfsmönnum skattgreiðenda með mann í viðtali og voru menningarmál rædd. Fór ekki á milli mála að starfsmaðurinn var hálfu meira fylgjandi því en viðmælandinn að launagreiðendur starfsmannsins, þ.e. skattgreiðendur, fengju náðarsamlegast að leggja meira af mörkum í ríkishítina. Taldi starfsmaðurinn aukins skilnings þörf hjá hinu opinbera að eyða meiru í menningarmál. Í huga starfsmannsins var sá möguleiki ekki fyrir hendi að sumir launagreiðenda hans álitu sig þegar greiða meira en nóg til hins opinbera. Hann upplýsist hér með um að flestir þeirra gætu þegið að fá að halda hærri hluta launa sinna eftir um mánaðamót. Hinum er frjálst að fóðra ríkissjóð að vild.
Testamentið heitir blað nokkuð sem dreift er í sjoppur í Reykjavík. Aðstandendur blaðsins eru nokkrir róttækir ungir vinstri menn sem hampa föllnum hetjum kommúnismans á síðum blaðsins og agnúast út í kapítalismann. Allt er þetta kunnuglegt, en þó kemur á óvart að enn séu til menn sem halda sig við þá firru sem sósíalismi er. Hann hefur í öllum sínum myndum verið til tjóns og oft kostað milljónir lífið.
Í Svörtu bók kommúnismans, sem kom út nýlega, segir frá hryllilegum afleiðingum þeirrar tilraunar á mannskepnunni sem sumir telja að sé ekki fullreynd. Þar kemur fram að á þessari öld hafi 25 milljónir manna látið lífið af völdum þjóðernissósíalismans (nasismans) og að um það hafi mikið verið fjallað sem von er. En þar kemur líka fram að minna hafi verið sagt frá þeirri staðreynd að 100 milljónir hafi látið lífið vegna kommúnismans. Þetta ætti að vera róttæklingum á vinstri vængnum umhugsunarefni og víst er að sumir skipta um skoðun af minna tilefni.
En hver skyldi svo vera skýringin á þessum fjöldamorðum ríkisstjórna kommúnista og þjóðernissósíalista? Ætli það hafi bara hist þannig á fyrir tilviljun að það var einmitt í þessu þjóðfélagskerfi sem leiðtogarnir létu fremja slík voðaverk? Nei, aldeilis ekki. Kommúnisminn og þjóðernissósíalisminn byggjast á heildarhyggju. Þar er litið fyrst til einhverra óljósra heildarhagsmuna en einstaklingurinn skiptir ekki máli. Þar er kominn jarðvegurinn fyrir hópsektina, þ.e. að menn geti verið sekir um eitthvað fyrir það eitt að tilheyra tilteknum hópi, t.d. vera menntamenn eða Gyðingar, og þá er stutt í þau fjöldamorð sem nefnd voru hér að ofan.