„Jafnaðarmenn“ auglýstu í Morgunblaðinu á laugardaginn. Í auglýsingunni kom fram að þeir væru óánægðir með að landeigendur eigi þær auðlindir sem finnast á jörðum þeirra svo sem málma, olíu, vatn o.fl. Kynna jafnaðarmenn þetta sem mikið ranglæti og hafa ekki sparað ekki stór orð eins og „mestu eignatilfærslu Íslandssögunnar“ (þótt þeir hafi einnig notað þau orð yfir aflamarkskerfið í sjávarútvegi). Hafa jafnaðarmenn þó lengstum talið það sitt aðalsmerki að vilja stórfeldar eignatilfærslur (tekjujöfnun) milli manna.
Augljóst er af þessari auglýsingu að þingmenn jafnaðarmanna hafa ekki komið að landamærum Texas og Mexíkó. Þeir hafa sennilega ekki heldur komið að Berlínarmúrnum á sínum tíma. Á báðum stöðum hefur þótt nauðsyn að hafa vopnaða verði til að koma í veg fyrir að fólk flykkist yfir til þess lands þar sem auðlindir jarðar hafa verið að mestu leyti í einkaeign. Íslenskir jafnaðarmenn telja þó ekki fullreynt með sameignarstefnuna. Þeir telja enn rétt að ríkið sjái um nýtingu náttúruauðlinda, reki banka, símafyrirtæki og fjölmiðla. Áður fyrr var þetta nefnt þjóðnýtingarstefna en svo áttuðu menn sig á því að þegar ríkið sölsar fyrirtæki og auðlindir undir sig eru það fyrst og fremst stjórnmálamennirnir og háværustu hagsmunahóparnir sem maka krókinn en ekki þjóðin.
Í Morgunblaðinu á laugardaginn var einnig birt ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar um fylgi flokkanna á landsvísu. Þar kemur fram mesti stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn á kjörtímabilinu eða 44,7%. Stuðningur við Framsóknarflokkinn er svipaður og hann hefur verið í öllum könnunum á kjörtímabilinu eða 17,4%. Þjóðvaki fær stuðning 2,1% í könnuninni. Hin svonefndu Landsbankamál virðast því ekki hafa breytt miklu um fylgi við flokka þeirra sem fóru með helstu hlutverk. Sennilega er fólk búið að átta sig á því að Jóhanna Sigurðardóttir ber ekki síst ábyrgð á því sem miður hefur farið í ríkisbönkunum enda er hún fremst í flokki þeirra jafnaðarmanna sem vilja ekki bara ríkisrekstur á öllu milli himins og jarðar heldur einnig á öllu neðanjarðar og neðansjávar.
Frambjóðendur R-listans, þeir Helgi Hjörvar og Hrannar B. Arnarsson, hafa nú svarað í nokkru þeim fullyrðingum um fjármálaóreiðu sem fyrrum samstarfsmenn þeirra hafa sett fram. Samstarfsmennirnir fyrrverandi hafa þegar komið með andsvör við svörum Helga og Hrannars.