Laugardagur 9. maí 1998

129. tbl. 2. árg.

Það er undarlegur ósiður, svo ekki sé meira sagt, hjá hinu opinbera hér á landi að vera sýknt og heilagt að „kaupa“ land af einkaaðilum sem ekki vilja selja. Þessi ósiður kallast á fagmáli „eignarnám“ og er beitt hvenær sem hið opinbera, yfirleitt sveitarfélög, ásælast nýtt land en vilja ekki greiða raunverð fyrir. Nýjasta dæmið er að Kópavogur hefur hirt land af Vatnsenda við Elliðavatn. Skýringin er ekki einu sinni sú að brýna nauðsyn hafi borið til að ná þessu landi af eiganda þess, t.d. af öryggisástæðum fyrir Kópavogsbúa, heldur sú að nú fæst landið á góðu verði.

Eignarrétturinn og friðhelgi hans er ein mikilvægasta forsenda frjáls samfélags og það er vegna eignarréttarins sem þjóðfélög í Vestur-Evrópu blómstruðu í kalda stríðinu á meðan þau hnignuðu í Austur-Evrópu. Ef menn eiga sífellt á hættu að hið opinbera taki eigur þeirra á því verði sem því hentar en kaupi þær ekki á markaðsverði er verið að senda þeim afar slæm skilaboð sem, fyrir utan að skerða sjálfsagðan rétt manna til eigna sinna, bitnar á hagkvæmni og skilvirkni í hagkerfinu.

Svo er umhugsunarvert að eignarnámi er ævinlega beitt gegn einstaklingum. Hvers vegna skyldu sveitarfélög ekki alveg eins taka land hvert af öðru. Reykjavík gæti t.d. í krafti stærðar sinnar krafist lands af Seltjarnarnesi. Eða Hafnarfjörður af Bessastaðahreppi. Af einhverjum undarlegum ástæðum virðast sveitarstjórnarmenn bera meiri virðingu fyrir sveitarfélögum en einstaklingum, þó þeir séu til þess kosnir að gæta hagsmuna þessara einstaklinga.

Það er fróðlegt að bera það saman hvernig fjölmiðlar í hinum ýmsu löndum taka á fyrri störfum og einkalífi stjórnmálamanna. Í Bandaríkjunum og Bretlandi er ekki hikað við að velta mönnum upp úr hvers kyns afglöpum í fjármálum, jafnvel áratuga gömlum og ekki ólgengt að gægst sé í nærplögg manna. Hér á landi hefur lítt borið á fréttum af persónulegum harmleikjum stjórnmálamanna, framhjáhaldi o.þ.h. Fjölmiðlar hér hafa hins vegar ekki hikað við að fjalla um mistök manna í fjármálum, gjaldþrot, skattskuldir, hringl með kennitölur o.s.frv. En bara sumra. Það er stundum eins og hrein hending ráði því um hverja er fjallað á þennan hátt. Vafalaust er þó ekki um tóma hendingu að ræða þar sem menn hafa misgóð tengsl við stjórnendur fjölmiðla.

Nú hefur verið birt hér á Netinu samantekt tveggja einstaklinga um skrautlegan feril Helga Hjörvars og Hrannars B. Arnarssonar í fyrirtækjarekstri en þessir menn störfuðu hjá fyrirtækjum Helga og Hrannars. Það vekur auðvitað nokkra furðu að fjölmiðlar hafi ekki sagt frá þessum málum enda stefnir allt í að Helgi og Hrannar verði helstu ráðamenn í Reykjavíkurborg eftir borgarstjórnarkosningar í vor. Það hlýtur að teljast fréttnæmt að leiðtogar R-listans hafi slíkan feril í fjármálaumsýslu. DV hefur t.d. oft slegið málum sem þessum upp. En ef til vill er ritstjórn blaðsins ekki í þægilegri stöðu eftir að annar ritstjóra þess hampaði Helga og Hrannari sérstaklega í „fréttaskýringu“ fyrir prófkjör  R-listans í vetur.