Föstudagur 8. maí 1998

128. tbl. 2. árg.

Vélfræðingar hjá Reykjavíkurborg hafa um árabil viljað ganga úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og í Vélstjórafélag Íslands. Borgin hefur þráast við en varð að viðurkenna rétt vélfræðinganna til að ganga úr Starfsmannafélaginu eftir að félagsdómur hafði dæmt að hjúkrunarfræðingum  væri heimilt að ganga úr félaginu. Reykjavíkurborg viðurkennir hins vegar ekki rétt vélfræðinganna til að ganga í VSFÍ! Og laun vélfræðinganna fara enn eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Stjórnarandstæðingar héldu málþófinu áfram á Alþingi í gær og nótt.  Hér hefur áður verið vikið að því hve stjórnarandstaðan er máttlítil og hugmyndasnauð. Málþófið bendir til að þetta eigi við nokkur rök að styðjast. Stjórnarandstæðingar sjá nú fyrir endann á þriðja þingi kjörtímabilsins án þess að þeim hafi tekist að gera ríkisstjórnarflokkunum nokkra skráveifu. Málþófið er síðasta hálmstráið á þessu þingi en enginn veitir því athygli á meðan Sverrir Hermannsson býður upp á trakteringar á síðum Morgunblaðsins og sveitarstjórnarkosningar eru á næsta leiti.