Fimmtudagur 7. maí 1998

127. tbl. 2. árg.

Símafyrirtækið Tal hf. hóf starfsemi sína í fyrradag og er fyrsta íslenska fyrirtækið sem hefur samkeppni við Landsímann rhf. eftir að einokun Póst- og símamálastofnunar á símrekstri var afnumin um síðustu áramót. Þetta mun vafalaust hafa áhrif á verð og gæði þjónustunnar sem neytendum stendur til boða. Þessi áhrif komu raunar að einhverju leyti fram áður en Tal hf. hóf starfsemi en Landsíminn hefur að undanförnu aukið þjónustu sína við GSM notendur og boðið hagstæðari kjör en áður. Það virðist oft nægja að opna markaði til að fyrrum einokunarfyrirtæki taki við sér enda er aðhald af yfirvofandi samkeppni.

Nokkrir þingmenn úr stjórnarandstöðuflokkunum halda nú uppi málþófi á Alþingi nótt sem nýtan dag vegna frumvarps um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Telja þeir að fámennum sveitarfélögum sé fengið of mikið vald í skipulagsmálum á hálendinu. Þykir þeim ekki gott að bændur og annað dreifbýlislið fái ráðið nokkru um miðhálendið. Þessir sömu þingmenn hafa flestir verið dyggir stuðningsmenn þess að efla sveitarfélögin og fela þeim aukin verkefni. Þessir sömu þingmenn styðja einnig frumvarp til laga um þjóðlendur þar sem ríkið kastar eign sinni á öll landsvæði utan eignarlanda. Forsætisráðherra mun fara með málefni þjóðlendna þegar ríkið hefur kastað eign sinni á þessi svæði. Nú verðum við bara að vona, hinna malandi stjórnarandstæðinganna vegna, að forsætisráðherra komi aldrei úr röðum bænda.

Jónas Þór Guðmundsson lögfræðingur ritar prýðilega grein um þessi mál í Morgunblaðið í gær og bendir á að það sé ástæðulaust að ríkið kasti eign sinni á landsvæði utan eignarlanda. Óhætt er að taka undir það með Jónasi. Þegar ríkið hefur sölsað þessi svæði undir sig hefst kapphlaup milli ýmissa sérhagsmunahópa sem vilja nýta svæðin. Ekki er gott að segja hverjir munu hafa sigur í því kapphlaupi. Það verður ekki besta nýtingin sem verður ofan á heldur sú sem hefur öflugasta sérhagsmunahópinn að baki sér. Það er því auðvitað algjör barnaskapur að halda að ríkið sé best til þess fallið að nýta hálendið af skynsemi.
Það vitlegasta sem forsætisráðherra getur gert þegar þjóðlendufrumvarpið hefur verið samþykkt er að bjóða þjóðlendurnar til sölu. Það er eina leiðin til að koma í veg fyrir að hálendið verði eyðilagt með pólítík eins og hverjar aðra Landmælingar.

Í Viðskiptablaðinu í vikunni er sagt frá hugmynd Normans nokkurs Nixons (bróður fyrrum Bandaríkjaforseta). Hann ætlar að byggja risaskip sem verður einskonar fljótandi borgríki þar sem sköttum og öðru ónæði verður úthýst. Skipið mun geta hýst 50.000 íbúa en öll nútímaþjónusta verður til staðar.
Þessi hugmynd er ein af mörgum sem menn hafa fengið eftir að skattheimta keyrði úr hófi fram á Vesturlöndum en það er orðið mjög „arðbært“ að finna leiðir framhjá skattinum. Viðskipti hér á Netinu eru t.d. í mörgum tilfellum þannig að erfitt er fyrir skattheimtumenn að fylgjast með þeim. Flestar þessara undankomuleiða eru þó einkum í boði fyrir fólk með háar tekjur sem getur ráðið sérfræðinga til leiðsagnar eða hreinlega sérfræðingana sjálfa. Venjulegt launafólk mun því í vaxandi mæli sitja eitt eftir með tekjuskattana sem lagðir voru á til jafna kjör þeirra og hinna!