Einhver afsláttarklúbbur býður nú félögum sínum 10% afslátt af aðgöngumiðum á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta er vel boðið. En bliknar þó í samanburði við þau afsláttarkjör sem skattgreiðendur bjóða. Skattgreiðendur bjóða hljómleikagestum nefnilega 90% afslátt af kostnaði við tónleikahald hljómsveitarinnar. Aðgangseyrir að tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands stendur aðeins undir einum tíunda af kostnaði við rekstur sveitarinnar.
Kjallaragreinin „Siðleysi“ eftir Sigurð Magnússon rithöfund í DV í gær um Landsbankamálið svonefnda er dæmigerð að tvennu leyti. Annars vegar telur Sigurður eins og svo margir aðrir að hann geti hafið sjálfan sig upp með því að lýsa nægilegri hneykslan. Hins vegar fer það fyrir ofan garð og neðan hjá Sigurði hvað við getum gert til að fækka þeim tækifærum sem menn hafa til að hringla með fé okkar skattgreiðenda.
Það er ekkert nýtt að menn skrifi greinar í hneykslunartón eftir að upp kemst um óráðsíu í opinberum rekstri. Sigurður og aðrir sem sjá færi á slá sig til riddara hafa gert það áratugum saman án þess að opinber rekstur hafi orðið betri fyrir vikið. Í næstu grein skrifa þessir menn svo yfirleitt um nauðsyn þess að þenja ríkisbáknið út og skapa þar með ný tækifæri fyrir þá sem vilja nýta sér sameiginlega sjóði.
R-listinn dreifði á dögunum eyrnatöppum til kjósenda. Ekki er víst að allir hafi áttað sig á tilgangi framtaksins Nú hefur málið hins vegar skýrst en R-listinn hefur gefið út geisladisk þar sem frambjóðendur þenja raddböndin.