Saír í Afríku er væntanlega draumaland þeirra sem trúa því að auðlindir jarðar séu að ganga til þurrðar og offjölgun sé mikið vandamál. Þar er einstakt ræktarland sem dugað gæti til að brauðfæða alla álfuna, gnægð náttúruauðlinda í jörðu, ónýtt vatnsorka og síðast en ekki síst strjálbýli. Landið fullnægir því öllum skilyrðum umhverfisverndarsinna um fyrirheitna landið. Engu að síður er eymdarástand í þessari paradís. Því var ágætlega lýst í dönskum þætti í Ríkissjónvarpinu í gærdag. Þar var rætt við nokkra Afríkumenn um afleiðingar opinberrar ofstjórnar og erlendrar íhlutunar í nafni þróunaraðstoðar. Voru sumir þeirra á því að þróunaraðstoðin rynni beint í vasa stjórnmála- og embættismann sem notuðu féð til að fjárfesta erlendis fyrir sjálfa sig.
Á hverjum sunnudegi klukkan þrettán býður Rás 2 hlustendum sínum upp á að hlusta á klkkustundar ræðu frá einherjum áhugamanni um að skattgreiðendur verði látnir greiða fyrir kvikmyndagerð. Í gær hélt gestur þáttarins því fram að ríkið ætti að setja 1,5 milljarð á hverju ári í kvikmyndagerð. (Kvikmyndasjóður hefur nú um 100 milljónir króna til ráðstöfunar þannig að þarna væri verið að 15 falda útgjöld.) Helstu rök hans fyrir því að hver landsmaður verði skattlagður um tæpar 6.000 krónur aukalega til að standa undir kvikmyndagerð voru þau að kvikmyndagerð væri arðbær atvinnuvegur!
Ætli Sverrir verði ekki heiðursfélagi í Samtökum um þjóðareymd?