Helgarsprokið 3. maí 1998

123. tbl. 2. árg.

Það skiptir máli hvernig fréttamenn kynna viðmælendur sína fyrir hlustendum. Hlustendur þurfa að vita hvað það er sem gerir það að verkum að maðurinn er talinn hafa eitthvað til málanna að leggja. Svo munu ýmsir hlustendur ef til vill vilja fá að vita um manninn meira, t.d. hvort eitthvað tengi hann málefnu að öðru leyti eða hvort ástæða sé til að taka svörum hans með auknum fyrirvara. Skiptir þetta einkum máli þegar viðmælandinn er ekki þjóðþekkt persóna svo almenningur telur hann jafnvel óháðan sérfræðing eða fræðimann. Misjafnt er hvað fréttamenn telja þess virði að koma fram. Tökum dæmi af handahófi úr Ríkisútvarpinu 1. maí.

Fréttamaður sá um þátt um komandi sveitarstjórnarkosningar og fékk til viðtals Þórð Skúlason. Fréttamaðurinn sagði að Þórður væri framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og hefði verið sveitarstjóri Hvammstangahrepps. Hann væri því öllum hnútum kunnugur. Hann nefndi hins vegar ekki að Þórður hefði verið varaþingmaður Alþýðubandalagsins um átta ára skeið og setið árum saman í miðstjórn Alþýðubandalagsins. Þá kynnti fréttamaðurinn Lindu Blöndal sem ynni nú við rannsóknir á félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hann nefndi ekki, að Linda hefði síðustu ár verið einn leiðtoga Röskvu, samtaka vinstri manna í Háskóla Íslands og hefði setið í Stúdentaráði fyrir vinstri menn undanfarin tvö ár. Sama dag sögðu fréttamenn frá ræðum (sem áður hafði verið útvarpað) vegna „baráttudags verkalýðsins“. Þar voru Jóhann Geirdal og Kristín Guðmundsdóttir réttilega sögð formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Ekki var hins vegar nefnt að Jóhann er varaformaður Alþýðubandalagsins og Kristín varaþingmaður sama flokks.

Nú má auðvitað segja að Þórður og Linda hafi verið fengin í þáttinn sem sérstaklega frótt fólk um sveitarstjórnarmál og Jóhann og Kristín hafi einungis talað vegna starfa sinna í forystu verkalýðshreyfingarinnar. Það kann að vera rétt svo langt sem það nær. Auðvitað er óþarfi að telja upp trúnaðarstörf manna fyrir stjórnmálaflokka hvenær sem þeir koma í útvarp. En sé fólkið öllum almenningi óþekkt og eigi að ræða stjórnmál og kosningar má ætla að stjórnmálaskoðanir þess séu meðal þess sem hefur áhrif á trúverðugleika þess.