Óhætt mun að segja að fyrstu áratugi lýðveldistímans hafi fáir stjórnmálamenn reynst Íslendingum betur en Bjarni Benediktsson. Á fimmta áratug aldarinnar var Bjarni ásamt Ólafi Thors fremstur í flokki forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem börðust fyrir því að Ísland tæki þátt í varnarbandalagi vestrænna lýðræðisþjóða. Nú á ungt fólk erfitt með að ímynda sér þau átök sem urðu um það mál. Í framtíðinni munu enn færri átta sig á hve nærri lá að örlögum þjóðarinnar yrði teflt í mikla tvísýnu, enda er nú mikill siður að gera sem minnst úr fyrri orðum og gerðum vinstri manna. Nú er mjög í tísku að halda því fram að vinstri menn séu nú ekki svo miklir vinstri menn, í hæsta lagi saklausir „jafnaðarmenn“ og ungir vinstri menn, þessir sem í daglegu tali kalla sig (og annað ungt fólk) af hógværð sinni „Röskvukynslóðina“, hlæja yfirlætislega að þeim sem halda því fram að ræða megi sögu íslenskra vinstri flokka. Þeir, sem kynnt hafa sér stjórnmálasögu þessarar aldar, vita hins vegar hve þáttur Bjarna Benediktssonar í öryggismálum þjóðarinnar var dýrmætur.
Ekki eru hér tök á að rekja stjórnmálaferil Bjarna, en þó skal minnt á að Bjarni var ekki einungis áhugasamur um að landið yrði ekki skilið eftir varnarlaust handa hverjum sem hafa vildi. Í viðreisnarstjórninni svonefndu sat hann í ellefu ár og átti þar drjúgan þátt í að afnema þau miklu höft sem lögð höfðu verið á allt atvinnulíf í landinu. Þá var ekki síður mikilvæg staðfesta hans við stjórnarforystu sem tryggði að landið hélt sjó þegar ytri áföll riðu yfir efnahagslífið í lok sjöunda áratugsins. Bjarni Benediktsson var óvenjulega heill og raunsær stjórnmálamaður sem aldrei missti sjónar á hugsjónum sínum. Hugsjónum sem hann lýsti svo í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1967:
„Frelsið hefur reynst íslensku þjóðinni sá styrkur og aflgjafi, sem hún getur síst án verið. Vitneskja um þessa staðreynd á ekki að vera okkur fjarlægur fróðleikur, heldur verður hún að vera leiðarvísir, sem við megum aldrei gleyma á allri okkar lífssögu.“
Í dag eru níutíu ár liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar.