Íslensk stjórnvöld hafa boðað að á næstunni verði farið að ganga harðar eftir því að reglugerðum um merkingar matvæla verði fylgt betur eftir en verið hefur hingað til. Tilskipanir ESB um matvælamerkingar eru hluti EES-samningsins og hafa verið settar reglugerðir hér á landi til samræmis við þær. Hinar evrópsku merkingarreglur eru frábrugðnar reglum sem gilda um sama efni utan ESB, t.d. í Bandaríkjunum. Hafa hagsmunaaðilar í verslun og viðskiptum hér á landi bent á að með því að framfylgja þessum reglum af hörku kunni stjórnvöld að valda því að ýmsar amerískar vörutegundir detti hér út af markaði eða hækki til muna í verði, enda er ljóst að það mun mikill aukakostnaður fylgja því fyrir annað hvort ameríska framleiðendur eða innlenda innflytjendur að sérmerkja viðkomandi vörutegundir fyrir íslenskan markað. Hagsmunaaðilar hafa því eðlilega lagt til að stjórnvöld leiti leiða til þess að tryggja, að ekki verði gengið fram í þessu máli af hörku, heldur fundin leið til að laga hinar evrópsku reglur að íslenskum aðstæðum eins og hægt er. Vitað er að innleiðing þessara reglna hefur meiri áhrif hér á landi en víðast hvar í Evrópu, enda hafa amerísku vörurnar sterkari stöðu á markaði hér en almennt innan aðildarríkja ESB og EES.
Mál þetta sýnir í hnotskurn vanda, sem fylgt getur aðild að alþjóðlegum viðskiptabandalögum. Þótt EES-samningurinn hafi fyrst og fremst átt að tryggja frjáls og óhindruð viðskipti milli aðildarríkjanna þá fylgja honum ýmsar aukaverkanir af þessu tagi. Í stað þess að semja einfaldlega um óhindruð og tollfrjáls viðskipti milli landanna var samið um tollfrelsi með margvíslegum skilyrðum og ýmsum hindrunum gagnvart viðskiptum við þjóðir utan Evrópu. EES-samningurinn hefur að flestu leyti verið góðs fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf, en hins vegar er engin leið að loka augunum fyrir göllunum. Þetta ber að hafa sterklega í huga þegar hugsanleg aðild að ESB er til umræðu hér á landi, því hætt er við með því að skipta á EES og ESB aðild væri litlu aukið við það frjálsræði, sem fékkst með EES, en miklu bætt við þær takmarkanir og reglugerðafargan, sem íslenskt atvinnulíf og neytendur þurfa að búa við.
Framboðin í Reykjavík ætla greinilega öll að vera með heimasíðu á netinu. Sjálfstæðisflokkurinn opnaði sína síðu fyrir nokkru, R-listinn í gær og Húmoristaflokkurinn er einnig kominn með heimasíðu.