Fjármálaóreiða Alþýðubandalagsins vegna útgáfu á Þjóðviljanum sáluga er tekin til ítarlegrar umfjöllunar í Viðskiptablaðinu í vikunni. Ekki er óvarlegt að áætla að flokkurinn hafi hlaupist frá um 100 milljónum króna vegna útgáfunnar. Ástæður þess að sú varð niðurstaðan eru ekki síst þær að forsvarsmönnum útgáfunnar/Alþýðubandalagsins tókst að fá Landsbankann til að samþykkja alveg einstæða gerð ábyrgða, sem kalla má „víkjandi ábyrgðir“. Þær hljóðuðu upp á að ábyrgðarmennirnir væru ábyrgir á meðan rekstur blaðsins héldi áfram, en ef reksturinn legðist niður væru þeir lausir undan ábyrgð!
Þetta er allt saman sérstaklega athyglisvert vegna ummæla sem þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, Ólafur Ragnar Grímsson, lét falla um viðskiptasiðferði.
Þessi orð Ólafs Ragnars birtust í ritinu Ný leið Íslendinga: „Viðskiptasiðferði er einnig nauðsynlegur þáttur í endurreisn atvinnulífsins og nýrri sókn. Gamla kerfið þar sem skuldir og ábyrgðir eru skildar eftir í gjaldþrotinu og sömu menn birtast svo bara aftur undir nýju firmanafni verður að líða undir lok. Það er fáheyrt í siðuðum löndum að að slíkir fjárglæframenn í viðskiptalífi geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist, hvað þá heldur gegnt opinberum trúnaðarstörfum.“
Það átti svo einmitt eftir að liggja fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni og félögum að „birtast undir nýju firmanafni“ í útgáfufélögum Helgarblaðsins og Vikublaðsins sem Alþýðubandalagið hóf útgáfu á eftir að skuldir og ábyrgðir Þjóðviljans „voru skildar eftir í gjaldþrotinu“. En eins og alþjóð er kunnugt sóttist Ólafur Ragnar eftir að gegna opinberri trúnaðarstöðu að þessu loknu.