Þröstur Ólafsson, formaður bankaráðs Seðlabankans, var í viðtali í Ríkisútvarpinu á miðvikudagsmorgun. Þar var hann spurður um álit á ástæðum þess, að stjórnendur í opinberum stofnunum og ríkisfyrirtækjum gengju lengra en góðu hófi gegnir í því að nýta sér sporslum ýmiss konar og fríðindi. Þröstur kom að kjarna málsins í viðtalinu, því hann benti á að ástæðan væri sú, að agavald eigenda skorti. Mikil fjarlægð væri milli hinna raunverulegu eigenda fyrirtækjanna og stjórnenda þeirra og því hefðu eigendurnir nánast enga möguleika og yfirleitt lítinn áhuga á því að hafa áhrif á reksturinn og stjórnendurnir þyrftu þar af leiðandi ekki að taka tillit til þeirra. Bætti Þröstur því við, að á þeim tíma sem hann fylgdist með rekstri Sambandsins sáluga (þá sem stjórnarformaður KRON) hafi hann séð sömu einkenni. Fjarlægð hafi verið mikil milli eigenda og stjórnenda og stjórnendurnir þar af leiðandi getað hegðað sér að vild. Þröstur benti síðan að lokum á, að aðstæður væru með öðrum hætti í einkafyrirtækjum, en þar gerðu eigendur yfirleitt skýra kröfu um að fá arð af því fé, sem þeir hafa lagt í reksturinn og því hefðu þeim miklu meiri áhuga á því að veita stjórnendum aðhald heldur en þekkist í ríkis- eða samvinnurekstri.
Þessar ábendingar Þrastar Ólafssonar snerta kjarna málsins í hinu svokallaða Landsbankamáli. Kjarni málsins er í raun ekki sá, hvort einstaklingurinn Sverrir Hermannsson hafi farið í of margar laxveiðiferðir eða hvort einstaklingurinn Björgvin Vilmundarson hafi keypt of mikið vín í veislur bankans. Kjarni málsins er sá, að óþörf risnuútgjöld, kostnaður við veisluhöld og áfengiskaup og flottræfilsháttur í utanlandsferðum og fleira af því tagi, viðgekkst í áraraðir athugasemdalaust vegna þess að agavald eigenda skorti. Þetta agavald verður hins vegar ekki að veruleika fyrr en einkaaðilar, einstaklingar, fyrirtæki og aðrir fjárfestar, eru orðnir eigendur Landsbankans og annarra fyrirtækja af sama tagi. Þá taka þessir eigendur afstöðu til þess hvort laxveiðiferðir og risnugjöld stjórnenda samræmist hagsmunum fyrirtækisins, og ef svo er ekki þá hafa þeir alla möguleika á að skipta um stjórnendur.
VÞ hefur reglulega vísað á stofnanir sem vinna að frjálslyndri hugmyndafræði en þeim hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Independent Institute í Bandaríkjunum hefur starfað í þessum anda í ein 10 ár og látið töluvert að sér kveða. Stofnunin gefur út tímaritið Independent Review sem er í fræðilegri kantinum en engu að síður mjög læsilegt. Sækja má allar greinar sem birtast í tímaritinu á heimasíðu félagsins.
Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars og þakkar góðar viðtökur í vetur.